Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biden minnti Salman konung á mikilvægi mannréttinda

26.02.2021 - 04:48
A man walks past a banner showing Saudi King Salman, right, and his Crown Prince Mohammed bin Salman, outside a mall in Jiddah, Saudi Arabia, Saturday, March 7, 2020. (AP Photo/Amr Nabil)
 Mynd: AP images
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lagði áherslu á mikilvægi mannréttinda og laga og reglu í samtali sínu við Salman konung Sádi Arabíu í gær. Að sögn sádiarabískra fjölmiðla undirstrikuðu leiðtogarnir öflugt samband ríkjanna og samstöðu í baráttunni gegn vígahreyfingum sem njóta stuðnings íranskra stjórnvalda.

Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs er samtal þeirra Bidens og Salmans talinn undanfari þess að skýrsla rannsóknar bandarískra yfirvalda á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi verði birt. Þar er niðurstaðan talin vera sú að sádiarabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum.

Bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken ræddi við starfsbróður sinn í Sádi Arabíu í gær þar sem hann ítrekaði einnig mikilvægi þróunar mannréttindamála í Sádi Arabíu.

Bendir margt í átt að krónprinsinum

Khashoggi var í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum eftir að honum sinnaðist við stjórnvöld í heimalandinu Sádi Arabíu. Hann var áður góður vinur konungsfjölskyldunnar, en hóf að skrifa greinar þar sem hann gagnrýndi krónprinsinn. Khashoggi átti svo leið í sádiarabísku ræðisskrifstofuna í Istanbúl í Tyrklandi í október 2018. Þar var setið fyrir honum og hann myrtur.

Bandaríska CNN fréttastofan greindi í gær frá því að árásarmönnunum hafi verið flogið til og frá Tyrklandi í einkaþotum í eigu fyrirtækis krónprinsins. 
Sjálfur hefur krónprinsinn bin Salman alfarið neitað að eiga beinan þátt í morðinu. Hann hefur þó viðurkennt að Sádi Arabía beri ábyrgð á morðinu. Fimm menn voru dæmdir til dauða vegna málsins í Sádi Arabíu í fyrra. Sá dómur var hins vegar mildaður í september. Átta til viðbótar hlutu allt að tuttugu ára dóm.