Vill að lesblind trúi á sig sjálf

Mynd: Lesblinda / Sagafilm

Vill að lesblind trúi á sig sjálf

25.02.2021 - 14:16

Höfundar

Sylvía Erla Melsted greindist seint með lesblindu því hún kom sér ung upp aðferðum til að fylla í eyðurnar. Í nýrri heimildarmynd segir hún sögu sína og annarra. „Það er það sem braut í mér hjartað, þegar ég byrjaði á þessu 17 ára,“ segir hún um það þegar henni varð ljós aðstöðumunur þeirra sem eru með lesblindu.

Í heimildarmyndinni Lesblinda kynnast áhorfendur Sylvíu og öðrum viðmælendum sem glímt hafa við lesblindu og hindranir henni tengdri. Sylvía greindist sjálf seint lesblind, undir lok 9. bekkjar. „Ég átti ekki erfitt með að byrja að læra að lesa, ég las bara stundum svolítið vitlaust,“ segir hún í Segðu mér á Rás 1. Það var ekki fyrr en hún fór að læra dönsku og ensku að það kom í ljós að hún átti í erfiðleikum með smáorð. „Ég gat ekki sett mynd á þau. Því þegar ég hugsa orð þá hugsa ég þau myndrænt. Ég tengi þetta saman. Þegar ég les hundur þá sé ég mynd af hundi en þegar ég sé þessi milliorð þá fer allt í þvælu.“

Sylvía hafði lengi verið ákveðin í að að komast í Verzló, sem hún gerði eftir mikla vinnu. „Ég fer í lesblinduskóla sumarið fyrir 10. bekk og ég gerði ekkert annað en að læra. Ég sleppti skíðaferðum af því ég var að læra fyrir próf og fékk aukakennara. Oft gat ég ekki lært allt í skólanum og því þurfti ég að læra þetta heima. Síðan fékk ég ótrúlega mikinn stuðning frá mömmu minni sem sat yfir mér og litla bróður mínum, sem er líka lesblindur.“

Engin ein lausn sem hentar öllum

Þegar hún loks komst í Verzló lenti hún á vegg. „Ég fer allt í einu að upplifa kvíða sem ég hafði aldrei lent í og ég fer að upplifa það að sama hvað ég legg á mig og sama hvað ég læri mikið þá er ég ekki að ná þessari einkunn sem ég á skilið. Ég er ekki að ná þeim árangri eins og ég ætti að ná miðað við hvað ég er læra mikið... Ég var farin að anda í poka og fór í dáleiðslu til að róa mig niður. Ég sagði við mömmu að þetta væri of erfitt fyrir mig, ég gæti þetta ekki.“

Sylvía vildi skipta um skóla en mamma hennar stappaði í hana stálinu og sagði að vinnan myndi skila sér. Á öðru ári í Verzló eignaðist hún svo hundinn Oreo, sem reyndist mikið gæfuspor, og útbjó hún lærdómsaðferð sem hún kallar loppukerfi.

Mynd: Lesblinda / Sagafilm
Sylvía segir frá loppukerfinu.

Sylvía segir að einkunnirnar hafi hækkað mjög eftir það. „En það er líka út af aðstoðinni sem ég fékk frá mömmu og aukakennurunum. Ég tók inn allt það sem hentaði mér og bjó til mína eigin verkfærakistu en fékk aðgengi að öðrum verkfærum til að setja í kistuna mína. Það er það sem skiptir máli. Við erum öll mismunandi og það hentar ekki allt fyrir alla. Lesblinda er mismunandi, ég hef ekki hitt neinn sem er með sömu lesblindu og ég. Þess vegna skiptir máli að þú búir til þína aðferð sem hentar þér.“

Sættir sig ekki við aðgerðarleysi

Sylvía hefur alltaf verið opinská um eigin lesblindu en mörg upplifa mikla skömm í tengslum við hana, kvíða og depurð og neita að viðurkenna hana. „Það er það sem braut í mér hjartað, þegar ég byrjaði á þessu 17 ára að gera þessa heimildarmynd,“ segir Sylvía. „Hvað með þá einstaklinga sem hafa ekki þetta utanumhald sem ég hafði, höfðu ekki mömmu mína sem mömmu, fengu ekki aukaaðstoð og skólinn ekki að styðja þau. Hvað gerist þá fyrir þessa krakka? Ég get ekki sætt mig við það að það sé ekkert gert.“

Þegar hún fór að skoða málið betur vegna heimildarmyndarinnar komst hún að því að nokkrir skólafélagar hennar vildu ekki að aðrir vissu af því að þeir væru lesblindir. „Þá kemur inn þessi skömm að vilja ekki viðurkenna það.“ Allir vissu hins vegar af lesblindu hennar í bekknum og hún var óhrædd við að spyrja spurninga  í tíma. „Ég átta mig á að ég er í skólanum fyrir mig og ég þarf að skilja það sem ég er að læra og kennarinn er til þess að aðstoða þig. Margir hugsa: Er þetta vitlaus spurning? Er ég sú eina sem fatta þetta ekki? Maður má ekki gleyma því að þú ert í skólanum fyrir þig og þú átt ekki að þurfa að pæla í nemendunum. Það sem skiptir máli er að þú skilur það sem þú ert að læra.“

Sylvía varð vör við að málefnið snerti taugar hjá fólki víða. „Alls staðar sem ég fer og tala um þetta þá er einhver sem á barn sem er lesblint, er lesblindur sjálfur eða á mömmu eða ömmu sem er lesblind, þannig að allir tengja við þetta.“

Jón Gnarr er á meðal viðmælenda í myndinni og segir hún frásögn hans varpa ljósi á að margt hafi ekki breyst í því hvernig tekist er á við lesblindu. Jafnaldri Sylvíu mætti sömu hindrunum og Jón hafði mætt áratugum áður. „Sem segir að ekki nógu mikið hefur breyst. Stundum segja kennarar hluti sem maður á ekki að segja. Þó einkunnin sé 6 þá þýðir það ekki að manneskjan sé ekki búin að gera allt sem hún getur og leggja allt í það að fá þessa einkunn.“

„Markmiðið mitt með myndinni og það sem skiptir mig mestu máli er að lesblindir trúi á sjálfa sig,“ segir Sylvía. „Þó þau séu lesblind og þurfi að leggja meira á sig og þó þau nái ekki alveg þessum einkunnum í skóla, þá þýðir það ekki að þau geti ekki orðið framúrskarandi í einhverju, eða geti ekki orðið læknar, lögfræðingar eða hvað sem er. Þau mega ekki gefast upp. Þegar maður kemst yfir þessa hraðahindrun þá er þetta bara beinn vegur fram undan.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Sylvíu Erlu Melsted í Segðu mér á Rás 1. Viðtalið í heild er í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

Varð fyrir andlegri vakningu í íþróttahúsinu á Núpi

Menntamál

Gagnast lesblindum að hluta orðin niður

Innlent

Eiga erfitt með að greina í sundur andlit

Mannlíf

Áttaði sig á lesblindu um fertugt