Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tryggvi Gunnarsson hættir sem umboðsmaður Alþingis

25.02.2021 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Tryggvi Gunnarsson, sem hefur verið umboðsmaður Alþingis í nærri tvo áratugi, hefur óskað eftir lausn frá störfum frá og með 1. maí. Þetta upplýsti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, við upphaf þingfundar. Tryggvi sendi Alþingi bréf þess efnis þar sem hann óskaði eftir lausn frá störfum. Steingrímur þakkaði Tryggva fyrir störf sín og sagði forsætisnefnd hafa þegar hafið undirbúning að kosningu nýs umboðsmanns.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, var settur umboðsmaður 1. nóvember til að Tryggvi gæti unnið að fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. 

Tryggvi var kosinn umboðsmaður Alþingis í október 2019 til næstu fjögurra ára. Hann hefur gegnt embættinu frá ársbyrjun 2000 en var áður sérstakur aðstoðamaður umboðsmanns. „Um þessar mundir eru liðin 33 ár síðan ég kom fyrst að starfi umboðsmanns Alþingis. Allan þennan tíma hef ég notið þess að sinna þessum störfum og rækja það verkefni að greiða úr málum borgaranna í umboði Alþingis gagnvart stjórnsýslunni,“ er haft eftir Tryggva á vef embættisins.

Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að verja ekki nógu miklu fjármagni til embættisins og sagt fjárskortinn gera það að verkum að embættið gæti ekki sinnt frumkvæðismálum. 

Ekki væri trúverðugt að embætti umboðsmanns aðhefðist ekki eftir ábendingar. „„Það er betra að vera hreinskilinn og segja að ekki sé hægt að sinna þessu,“ sagði Tryggvi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV