Þegar danska kryddsíldin sló rækilega í gegn

Fjörutíu ár frá fyrstu opinberu heimsókn Vigdísar forseta
Mynd: RÚV / RÚV
Lítil frétt sem birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 1981 hefur mögulega gert fyrstu opinberu heimsókn Vigdísar Finnbogadóttur eftir að hún var kjörin forseti ennþá  eftirminnilegri en ella væri. „Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, mun á ferð sinni til Danmerkur á næstunni m.a. sitja kryddsíldarveislu með um 200 dönskum blaðamönnum,“ sagði Mogginn og vísaði í frétt danska blaðsins Berlingske Tidende.

Fyrsta opinbera heimsókn Vigdísar var til Danmerkur þar sem Margrét Þórhildur Danadrottning tók á móti henni með kostum og kynjum. Ferðin hófst að morgni 25. febrúar 1981 þegar Flugleiðavél flutti forsetann til Kaupmannahafnar. 

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Jafnframt kom fram í frétt Morgunblaðsins að það væri Danadrottning sem byði til veislunnar og til stæði að þær svöruðu spurningum blaðamanna, þar á meðal um embætti forseta Íslands.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Í fyrirsögn danska blaðsins sagði „Dronningen i krydsild hos 200 journalister“, sem merkir alls ekki að þær hafi ætlað að gæða sér á gómsætri síld meðan þær spjölluðu við blaðamennina heldur að þær stæðu frammi fyrir því að svara spurningum margra blaðamanna á sama tíma.

Á ekkert skylt við kryddsíld

Önnur dagblöð gripu kryddsíldina fljótlega á lofti og hentu nokkuð gaman að „makalausum“ þýðingarfótaskorti kollega sinna á Morgunblaðinu. 

Í Þjóðviljanum 21. febrúar var þó sagt að ósköp mannlegt væri að falla í svona þýðingargildru og upplýsti jafnframt að kalkúnn yrði á borðum á blaðamannafundinum.  

Á ekkert skylt við kryddsíld

Brynhildur Steinþórsdóttir, sem hafði þá verið búsett í Kaupmannahöfn um ríflega 26 ára skeið, benti á misskilninginn í bréfi til Velvakanda Morgunblaðsins 28. janúar.

„Maður hefði nú einmitt haldið að blaðamenn vissu að á blaðamannamáli er orðið „krydsild“ notað um það þegar tveir eða fleiri blaðamenn eiga viðtal við fólk í einu,“ sagði í bréfi Brynhildar.

Hún benti sömuleiðis á að það væri Den Danske Publicistklub, eða danski blaðamannaklúbburinn, sem byði til veislunnar en ekki drottningin sjálf. Þetta var þó í fyrsta sinn sem Margrét Þórhildur samþykkti að mæta á slíkan blaðamannafund.

Brynhildur sló á létta strengi í bréfi sínu og sagði ekki útilokað að á þessu „frokostmöde“ yrði boðið upp á kryddsíld meðal annars og sagði misskilninginn prýðilegt efni fyrir skopmyndateiknarann Sigmund.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Blaðamannafundurinn var haldinn í hádeginu föstudaginn 27. febrúar. Ef marka má fréttir blaða var miklu lofsorði lokið á frammistöðu Vigdísar og Margrétar á fundinum sem hundruð blaðamanna sóttu, færri komust að en vildu.

Frá því er greint að ríflega helmingi fundarins hafi verið varið í umræður um stöðu kvenna og haft eftir Vigdísi að konur ættu ekki að tileinka sér siði karla heldur halda áfram að vera konur, þá ykjust líkur á friði í heiminum. 

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Um líðan handritanna sem Danir tóku til við að afhenda Íslendingum tíu árum fyrr sagði Vigdís að þau væru stúderuð af alúð allan daginn og lögð varlega til svefns um nætur. 

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að greinilegt sé að Vigdís og Margrét hafi náð vel saman meðan á heimsókninni stóð. „Svo má ekki gleyma að Vigdís talar mjög góða dönsku,“ segir Guðmundur. 

Það hafi líka vakið athygli að Vigdís var fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi. „Vigdís leyfði sér að vera með skoðanir sem er ekki alltaf auðvelt fyrir fólk í hennar stöðu.“

Aðspurð sagðist Vigdís vilja sjá fyrirsagnirnar „Vísindin hafa sigrað“ og „Kjarnorkuvopnum hefur verið útrýmt“ í blöðunum daginn eftir, við mikil fagnaðarlæti blaðamannanna. 

Á ekkert skylt við kryddsíld

Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur skrifaði í Vísi 9. mars 1981 að forsetinn hefði komið fram af óvenjulegum glæsibrag og að „kryddsíldar“-veislan fræga hafi sett þær Margréti á heiðursstall í augum Dana.

Dagskrá heimsóknarinnar var þaulskipulögð. Margrét Þórhildur og Hinrik prins tóku á móti Vigdísi og fylgdarliði hennar á Kastrup-flugvelli. Um kvöldið hélt drottning veislu forsetanum til heiðurs í Kristjánsborgarhöll.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Daginn eftir var Vigdísi sýnd Konunglega postulínsverksmiðjan, hirðleikhúsið og söfn í Kristjánsborgarhöll. Um kvöldið bauð drottning til hátíðarsýningar í Konunglega leikhúsinu og samkvæmis í höll Kristjáns VII. í kjölfarið.

Á föstudasmorgni opnaði Vigdís sýningu á íslenskum listaverkum í Ráðhúsinu á Fredriksbergi, áður en hún hélt til fundar við blaðamennina ásamt drottningu. 

Mikið var fjallað um heimsókn Vigdísar til Danmerkur í fjölmiðlum beggja landa en Ólafur Jóhannesson þáverandi utanríkisráðherra var með í för ásamt Dóru Guðbjartsdóttur, eiginkonu hans.

Jafnframt voru þau Hörður Helgason, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu og kona hans Sara Helgason; Birgir Möller forsetaritari og Gunnilla Möller eiginkona hans ásamt Vigdísi Bjarnadóttur fulltrúa á forsetaskrifstofunni í fylgd forseta.

Ólöf Kolbrún Harðardóttir óperusöngkona og Gísli Magnússon píanóleikari voru einnig í föruneyti Vigdísar forseta. Einar Ágústsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og Þórunn Sigurðardóttir eiginkona hans bættust hefðum samkvæmt í hópinn ytra.  

Síðar á árinu 1981 sótti Vigdís Noreg og Svíþjóð heim og rifjaði þær heimsóknir upp í áramótaávarpi sínu. „Góðar minningar frá liðnu ári eru tengdar því að þjóð okkar hefur verið sýnd ljúf gestrisni erlendis og þjóðerni okkar, sérkennum og menningu veitt athygli og vakið forvitni.

Í huga mér og margra annarra hafa þær þjóðir sem sýnt hafa Íslandi og Íslendingum hlýhug með heimboðum færst nær okkur og við þeim.“

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Kryddsíldin hefur lifað lengi á vörum Íslendinga og svo virðist sem þetta danska orð yfir orrahríð blaðamanna hafi fest sig í sessi í tungumálinu.

Þann 29. desember 1989 var þátturinn Kryddsíld á dagskrá útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar undir stjórn Jóns Ásgeirssonar fréttastjóra hennar og Páls Magnússonar fréttastjóra Stöðvar tvö.

Þátturinn var sendur út frá Grillinu á Hótel Sögu þar sem fréttastjórarnir tóku á móti forsprökkum stjórnmálaflokkanna sem skeggræddu um mál ársins sem var að kveðja. 

Kryddsíldin fór svo yfir í sjónvarp eftir sameiningu Bylgjunnar og Stöðvar tvö og var sýndur á gamlársdag 1992 undir stjórn Elínar Hirst fjölmiðlakonu. Hún segir í samtali við fréttastofu að það hafi þótt þjóðráð að nota þetta skemmtilega og lýsandi orð yfir rökræður stjórnmálamanna. 

 

25.02.2021 - 07:10