Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skoða að koma Snæfellsnesi á lista hjá UNESCO

Kanna á kosti þess að koma Snæfellsnesi á lista hjá UNESCO yfir svokölluð mann- og lífhvolfssvæði. Þetta yrði fyrsta slíka svæðið hér á landi. Man and biosphere, eða maður og lífhvolf er heiti áætlunar á vegum UNESCO með það að markmiði að efla samband íbúa og umhverfis. 714 slík svæði eru þegar til í 129 löndum.

„Þetta verkefni gengur út á það að finna leiðir til þess að maðurinn geti lifað í sátt og samlyndi við náttúruna og nýtt hana með þeim hætti að við getum gert það áfram um aldur og ævi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes og umhverfisráðherra skrifuðu í dag undir samning um að skoða kosti þess að koma Svæðisgarðinum á þann lista. Nú á að kortleggja hvaða möguleikar felast í því. Ef af þessu verður, yrði Snæfellsnes fyrsta svæðið af þessu tagi hér á landi. Niðurstöður skoðunarinnar er að vænta í vor

Maður og lífhvolf myndi einungis ná til lands en ekki til sjávar. Snæfellsnes er nú þegar meðal annars með Earthcheck umhverfisvottun og þar er einnig þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. 

„Við teljum að þetta gæti hugsanlega farið ákaflega vel með öðru sem við erum að gera. Það eru öðruvísi angar í þessu og hjálpar okkur að hugsa markvisst um hvernig stefnumörkun verður til framtíðar, þá fyrir unga fólkið ekki síst,“ segir Björg Ágústsdóttir, formaður stjórnar svæðisgarðsins og bæjarstjóri í Grundarfirði.

Ráðherra telur það Íslandi til framdráttar að fá svæði á listann. 

„Þetta þýðir það að við erum að taka enn meira þátt í þeirri þróun sem er á alþjóðavettvangi þegar kemur að þessu samspili manns og náttúru og yrði mjög jákvætt skref fyrir Ísland að mínu mati.“