Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rektor LHÍ fagnar að fá kvikmyndanám í skólann

Rektor LHÍ fagnar að fá kvikmyndanám í skólann

25.02.2021 - 20:51

Höfundar

Rektor Listaháskóla Íslands fagnar ákvörðun um að kvikmyndanám á háskólastigi verði í skólanum, það verði greininni til framdráttar að komast á háskólastig. Námið eigi að geta hafist næsta haust, þrátt fyrir skamman fyrirvara.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að kvikmyndanám á háskólastigi verði í Listaháskóla Íslands. Málið er nú til meðferðar í fjármálaráðuneytinu. Bæði Listaháskólinn og Kvikmyndaskóli Íslands höfðu lýst áhuga á að taka verkefnið að sér. Rektor Listaháskólans segist þakklát fyrir að loksins sé komin niðurstaða í málið.

„Fyrst og fremst finnst mér þetta vera ánægjuleg tíðindi fyrir  kvikmyndagerð, fagfólk á sviði kvikmyndagerðar á Íslandi því að það er mjög mikils virði fyrir kvikmyndagerðina sjálfa, hvort sem það er á sviði listrænnar kvikmyndagerðar eða bara í hreinni og klárri kvikmyndaframleiðslu að komast upp á háskólastigið og standa þar jafnfætis öðrum listgreinum loksins og geta haldið áfram að þróa bæði sína hugmyndafræði og komast inn í styrkjakerfi, samstarfsverkefni, tengslanet og annað sem að fylgir háskólakerfinu,“ seigr Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands.

Þá skipti máli að geta haldið áfram hugmyndafræðilegri þróun hér á landi, miðlunarleiðir séu orðnar mjög margar og mikil þróun í gangi sem fylgi nýjum miðlum. Hlúa þurfi að bæði sprotum og sterkum stólpum í kvikmyndagerð, annars sé hætta á að heltast úr lestinni. Eins og fram kom í fréttum RÚV á dögunum stendur til að bjóða upp á námið strax næsta haust. Fríða Björk segir að það náist þótt tíminn sé naumur.

„Við erum náttúrlega búin að hefja þennan undirbúning, hann hófst fyrir tveimur árum og við erum langt komin. En það er ekkert launungarmál að við þurftum að fá undanþágu frá stjórn Listaháskólans til þess að ríða á vaðið með þetta með svona skömmum fyrirvara, það er að segja, lokahnykkurinn er með skömmum fyrirvara, en við teljum okkur geta gert þetta og við munum leggja mikið afl í það og okkur er ekkert að vanbúnaði held ég. Ég held að við náum þessu.“

Fríða Björk segir búið að kortleggja námið mjög vel og grunnur að því sé til. Eftir á að fara í nákvæmar námskeiðslýsingar og finna hæfniviðmið, ganga frá kaupum eða leigu á tækjum og tólum sem og finna nýtt húsnæði - en skólinn hafi reyndar augastað á tilteknu húsnæði. Með kvikmyndanáminu bjóði Listaháskólinn upp á allar listgreinar og það skipti miklu máli, bæði fyrir skólann og eins listgreinarnar sem vinni þvert hver á aðra, ekki síst kvikmyndagerðin.   
 

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Kvikmyndanám á háskólastigi verður í Listaháskólanum