Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Orti kvæði til dýrðar Guði á Grensásvegi

Mynd: RÚV / RÚV

Orti kvæði til dýrðar Guði á Grensásvegi

25.02.2021 - 09:32

Höfundar

„Eitthvað verður maður að gera við hausinn á sér á meðan maður er að ýta á undan sé vagninum um hverfið,“ segir Davíð Þór Jónsson sem samdi trúarljóð í fæðingarorlofi og gaf út í kveri. Ljóðin eru ort undir dróttkvæðum hætti og eru innblásin af messutextum.

Davíð Þór Jónsson prestur, grínari og skáld sendi fyrir skemmstu frá sér ljóðakverið Allt uns festing brestur, sem inniheldur trúarljóð sem ort eru undir dróttkvæðum hætti. Í Kiljunni sagði hann frá bókinni og kveikjunni að henni sem varð þegar Davíð var í fæðingarorlofi fyrir fimm árum. „Þá fékk ég þessa hugmynd, að reyna að binda þessa hefðbundnu litúrgísku messutexta í form. Þetta eru textar sem ég vinn mikið með, eru eldfornir og eiga sér mikla sögu. Mér þykir vænt um þá,“ segir Davíð.

Hann ákvað að nýta tímann í orlofinu til að kafa í textana, spinna við þá og út frá þeim, umorða þá og endurtúlka. „Dróttkvæðahátturinn varð fyrir valinu því þetta er til dýrðar guði, og þegar menn gera list til dýrðar Guði þá dugir bara það dýrasta og besta. Dróttkvæðahátturinn var sá dýrasti sem ég taldi mig ráða skammlaust við.“

Bókin varð ekki til á einni nóttu heldur var hún í vinnslu yfir langt tímabil. „Eitthvað verður maður að gera við hausinn á sér á meðan maður er að ýta á undan sé vagninum um hverfið, og þá byrja setningar að verða til,“ segir Davíð sem ekki var viss um hve langt hann tæki hugmyndina. Hann lagði hana frá sér eftir orlofið, óviss um framhaldið. „Ég vissi svo sem ekki hvort neitt yrði úr þessu hjá mér. Eftir að ég var búinn með fæðingarorlofið varð þetta til en var hvorki fugl né fiskur.“

Tveimur árum eftir að þessu fæðingarorlofi lauk hófst hjá honum annað fæðingarorlof. Þá ákvað hann að endurnýja kynnin við kvæðin. „Þá rifjast upp fyrir mér það sem ég hafði verið að gera og ég byrja að snurfusa og lagfæra. Eftir seinna fæðingarorlofið var þetta nánast komið,“ segir hann.

Ekki urðu þó öll ljóðin til á dýrðlegum stöðum. „Mig minnir að síðasta ljóðið hafi orðið til á umferðarljósunum við Suðurlandsbraut og Grensásveg þegar ég var að koma úr Bónus. Allt í einu small það,“ segir Davíð glettinn.

Davíð er vanur ritstörfum, hefur ort ljóð eins lengi og hann man eftir sér og þýtt söngtexta, söngleiki og leikrit. Hann vann í mörg ár við að þýða sjónvarpsefni og fyrir talsetningu. „Svo ég hef unnið mikið á ritvél,“ segir Davíð, en hann þýddi eftirminnilega söngleikinn Hárið árið 1994 sem sló í gegn sama ár á Íslandi. „Það byrjaði eiginlega allt á Hárinu.“

Egill Helgason ræddi við Davíð Þór Jónsson í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

„Ég kann alveg að svara fyrir mig“