Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nærri 2.500 skjálftar á Reykjanesskaga síðan á miðnætti

Fólk á göngu í Bláfjöllum.
Fólk á göngu í Bláfjöllum. Staðfest hefur verið í Hæstarétti að Bláfjöll liggi innan sveitarfélagamarka Kópavogsbæjar. Mynd: Björn Guðmundsson
Mælar Veðurstofunnar hafa mælt nærri 2500 skjálfta á Reykjanesskaganum síðan á miðnætti. Þar af voru fimm stærri en þrír. Allir fundust greinilega á höfuðborgarsvæðinu, tveir í nótt og þrír nú síðdegis. Náttúruvársérfræðingur segir ómögulegt að segja til um hvort þessir skjálftar séu fyrirboði stærri skjálfta, eða hvort kerfið sé einfaldlega bara að losa um spennu eins og undanfarinn sólarhring.

Eðlilegt gas og ekkert landris

Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að það sé ómögulegt að segja til um hvað þetta þýði, annað en að greinilegt er að skjálftavirknin er enn í fullum gangi. Með öðrum orðum er ekkert hægt að segja til um hvort þessir stærri skjálftar auki líkur á þeim stóra - upp á 6 eða jafnvel 6,5 - eða hvort þetta þýði marga minni skjálfta. 

Vísindamenn Veðurstofunnar mældu gas í jörð á Suðurnesjunum í dag og niðurstöðurnar voru þær sömu og í gær: Engin breyting og ekkert óeðlilegt að mælast sem gæti bent til þess að eldgos sé yfirvofandi. Sömuleiðis hefur ekkert landris mælst, en til stendur að taka myndir úr gervitunglum í kvöld og þær niðurstöður fást á morgun. Spurð um mögulegan fyrirvara varðandi stóra skjálftann, ef hann kemur, segir Bryndís: 

„Það gæti vel verið að það verði enginn fyrirvari. En við erum helst að skoða hvort skjálftavirknin sé að færast. Ef sá stóri kemur þá verður hann líklega hjá Brennisteinsfjallasvæðinu eða við Bláfjöll. Ef virknin fer að lauma sér þangað þá gæti það verið mögulegur fyrirvari.”