Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ingileif: Bóluefni AstraZeneca veitir mjög góða vernd

epa08931898 A nurse prepares a dose of the Oxford/AstraZeneca Covid-19 vaccine at the NHS vaccine mass vaccination centre that has been set up in the grounds of Epsom Race Course, in Surrey, Britain 11 January 2021. The UK government has announced that mass vaccination centres will start operating from 11 January in London, Newcastle, Manchester, Birmingham, Bristol, Surrey and Stevenage.  EPA-EFE/DOMINIC LIPINSKI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, segir nýlega rannsókn sýna að bóluefnið frá AstraZeneca veiti mjög góða vernd gegn COVID-19. Því lengur sem beðið er með seinni sprautuna því meiri verður verndin eða 81,3 prósent. 12 vikur líða milli fyrri og seinni sprautunnar hér á landi. Þjóðverjar og Frakkar hafa áhyggjur af því hversu margir hafa afþakkað bóluefnið frá AstraZeneca og íhuga aðgerðir.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í morgun að borið hefði á því að fólk afþakkaði bóluefni AstraZeneca. Það hefði áhyggjur af því að bóluefnið veitti minni vörn en hin tvö sem verið er að nota og að meiri aukaverkanir fylgdu fyrri sprautunni, ólíkt hinum tveimur bóluefnunum.  

Hvernig er AstraZeneca notað hér á landi?

Rúmlega 3.700 hafa fengið bóluefni AstraZeneca hér á landi. Enginn þeirra hefur fengið seinni sprautuna enda líða þrír mánuðir á milli skammta.  Bóluefnið er ekki gefið fólki sem er eldra en 65 ára. Það hefur aðallega verið notað til að bólusetja starfsmenn hjúkrunar-og dvalarheimila. 

Til stendur að bólusetja 2.400 í þessari viku með bóluefninu.

Lyfjastofnun Íslands heldur utan um tilkynningar um aukaverkanir.  Samkvæmt vef stofnunarinnar hafa 66 tilkynningar borist eftir bólusetningu með AstraZeneca.  Engin af þeim hefur talist alvarleg.  Til samanburðar má nefna að 16 tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir hafa borist vegna notkunar á bóluefni Pfizer/BioNTech og þrjár vegna Moderna. 

Ísland ekkert einsdæmi

Það er víða en á Íslandi sem fólk hefur afþakkað bóluefni AstraZeneca. Fram kom í frétt Guardian í síðustu viku að stjórnmálamenn í Þýskalandi hefðu komið bóluefninu til varnar eftir að fjöldi fólks afþakkaði bólusetningu með bóluefninu. 

Aðeins 17 prósent af skömmtunum sem Þýskaland hefur fengið hafa verið notaðir.  Borgarstjóri Berlínar hótaði að senda þá sem vildu ekki bóluefnið aftast í röðina og heilbrigðisráðherra landsins sagði það vera forréttindi að vera boðin bólusetning með hinu „örugga og virka“ bóluefni AstraZeneca. 

Sömu sögu er að segja frá Frakklandi, Austurríki, og jafnvel Svíþjóð. Í frétt Guardian kemur fram að sjúkrahús í suðvesturhluta Frakklands hafi beðið um að fá að skipta út bóluefninu fyrir Moderna og Pfizer/BioNTech og á sjúkrahúsi í Austurríki mótmæltu 500 starfsmenn því að þeir ættu að fá bóluefni AstraZeneca.

Virkar bóluefnið?

Sérfræðingar hafa verið sammála um að bólusetning sé algjört lykilatriði í baráttunni við COVID-19.

Fram kemur í frétt New York Times að vísindamenn í Bretlandi sjái vísbendingar um að einn skammtur af bóluefni AstraZeneca eða Pfizer/BioNTech sé þegar farinn að skila árangri þar. Bresk yfirvöld hafa farið þá leið að láta 12 vikur líða á milli skammta með bæði bóluefnin. Þrjár vikur líða á milli fyrri og seinni skammtsins af Pfizer á Íslandi eins og mælt er fyrir um á fylgiseðli bóluefnisins. 

Rannsóknin bendir einnig til þess að bæði bóluefnin vinni vel gegn hinu svokallað breska afbrigði þótt frekari rannsókna sé þörf.

Segir bóluefnið veita góða vörn

Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, hefur skrifað um rannsóknir á bóluefnum á Facebook-síðu sinni.

Í dag vitnar hún í rannsókn sem birtist í hinu virta Lancet um miðjan þennan mánuð um bóluefni AstraZeneca. Hún leiddi í ljós að bóluefnið veitir mjög góða vernd hjá einstaklingum á aldrinum 18 til 55 ára sem fengu tvo fulla skammta. 

Verndin var betri eftir því sem lengra var á milli skammta eða 81,3 prósent ef 12 vikur eða lengri tími var á milli skammta. Einn skammtur veitti 76 prósent vernd frá 22 til 90 dögum.

„Þetta sýnir það að gefa tvo skammta af AstraZeneca bóluefni með 3 mánaða millibili er fínt, þ.e. góð vernd fram að seinni skammti, og vernd eftir seinni skammt er best hjá þeim sem fá skammtana með 12 vikna millibili eða lengur,“ skrifar Ingileif.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV