Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúðir fyrir allt að 20.000 manns á Ártúnshöfða

25.02.2021 - 19:28
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Allt að 20.000 manns munu flytja upp á Ártúnshöfða á næstu árum, gangi áætlanir Reykjavíkurborgar eftir. Varaformaður skipulagsráðs segir stefnt að því að flytja þá starfsemi sem fyrir er á höfðanum í útjaðar borgarinnar.

Ártúnshöfði, sem í daglegu tali er kallaður Höfði, hefur um langt árabil verið miðstöð iðnaðar, bílasala og bifreiðaverkstæða. Nú stendur hins vegar til að gjörbreyta stórum hluta svæðisins.

„Hér mun rísa mjög stór íbúðabyggð. Við erum að gera ráð fyrir íbúðabyggð fyrir allt að 20.000 manns á næstu árum þannig að allt þetta svæði mun víkja fyrir íbúðum,“ segir Pawel Bartoszek, varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkur.

Auk íbúða stendur til að reisa þrjá grunnskóla, leikskóla og sundlaug á svæðinu. Þá mun borgarlínan liggja í gegnum hverfið.

Hvers vegna er verið að ráðast í þetta?

„Það er bara eðlilegur hlutur í þróun borga að iðnaður sem oftast byrjar í jaðri borga víkur fyrir íbúðabyggð eftir því sem svæðið verður verðmætara,“ segir Pawel.

Mikilvæg starfsemi

Pawel segir að hugmyndin sé sú að sú starfsemi sem nú er á svæðinu flytjist í útjaðra borgarinnar, til dæmis á Esjumela eða upp á Hólmsheiði. Sum fyrirtækin séu á lóðum sem eru í eigu borgarinnar, en önnur séu á lóðum sem eru í eigu fasteignaþróunarfélaga sem vinna með borginni að breytingunum.

Eru eigendur þessara fyrirtækja sáttir við að þeim sé gert að flytja?

„Ég held að margir þeirra skilji alveg að iðnaður sem þessi er víkjandi í eðli sínu. Það er aldrei þannig að við höfum malbikunarstöð eða bílasölu staðsett miðsvæðis í bænum. Þannig að ég held að það sé ágætur skilningur á því en auðvitað er þetta alltaf rask fyrir fólk. En ég tek það fram að þetta er mikilvæg starfsemi sem ég vona að haldi sér í borginni með einhverju móti.“

Pawel segir að stefnt sé að því að deiliskipulag svæðisins verði tilbúið í sumar, og að framkvæmdir hefjist í byrjun næsta árs. Fyrstu íbúar geti svo flutt inn eftir þrjú til fjögur ár.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV