Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

GusGus, russian.girls og Huginn með nýtt

Mynd: Birta Rán Björgvinsdóttir / Game

GusGus, russian.girls og Huginn með nýtt

25.02.2021 - 08:15

Höfundar

Helstu fréttir af útgáfumálum eru þær að það styttist í nýja breiðskífu GusGus sem fagnar því með þriðja söngul á jafn mörgum mánuðum, Blankiflur er líka með nýtt lag eins og russian.girls, Huginn, Kaktus, Ragnar Ægir, SuperSerious og Freyr.

Gusgus og Vök - Our World

Þriðja lagið af væntanlegri plötu GusGus Mobile Home er lagið Our World þar sem Margrét í Vök er enn og aftur með teknókóngunum eins og í Higher og Stay the Ride. Þetta er allt saman eins og það á að vera því samkvæmt nýjustu fréttum er hún orðin gildur limur í sveitinni.


Blankiflur - Game

Game er fjórði söngull Blankiflur af væntanlegri plötu tónlistarkonunnar Ingu Birnu Friðjónsdóttur sem hún stefnir á að komi út í byrjun sumars. Hún segir að lagið sé fyrst og fremst mögnun á þeirri tilfinningu sem fylgir því að komast ekki að innsta kjarna manneskjunar sem maður elskar.


Kaktus - Kick the Ladder

Tvö síðustu lög sem Kaktus Einarsson hefur gefið út, I Go I Go og Perfect In á Way, hafa verið samvinnuverkefni hans og þýsku teknókóngana Booka Shade og gengið nokkuð vel. Í nýja laginu hans Kick the Ladder kveður við örlítið annan tón og ekki eins dansvænan.


russian.girls - Að drepa mann

russian.girls gáfu út lagið Drepa mann ásamt myndbandi í lok síðasta árs en hljómsveitin sendir nú frá sér þröngskífu á bbbbbb records. Þar er að finna lagið Að drepa mann ásamt endurhljóðblöndun af því og laginu Halda áfram.


Huginn - Geimfarar

Geimfarar með Hugin kom út í dag en hann hefur verið töluvert áberandi í tónlistarlífinu frá því að hann gaf út plötuna Eini strákur, árið 2018. Geimfarar segir Huginn að sé persónulegt lag þar sem textinn fjallar um að vera umkringdur fólki en vera engu að síður einmana.


Freyr - Nicotine Bunker

Freyr er sænsk-islenskur tónlistarmaður sem átti lagið Ride the Stream í spilun hér á Rásinni fyrir ekki svo löngu. Freyr er búsettur í Stokkhólmi og sendi frá sér lagið Nicotine Bunker í síðustu viku en það er titillagið af væntanlegri breiðskífu sem gefin verður út í lok maí.


SuperSerious - Lets Consume

SuperSerious var önnur af tveimur sveitum sem unnu hljómsveitakeppnina Sykurmolann sem var haldin á Xinu nýlega. Í kjölfarið sendi sveitin, sem gerði í kjölfarið samning við Öldu, frá sér lagið Lets Consume sem er eftir þau Daníel Jón Jónsson og Ingeborg Andersen.


Ragnar Ægir - The Surface

Tónlistarmaðurinn Ragnar Ægir hefur sent frá sér lagið The Surface. Þetta er hans fyrsta lag og myndband. Lagið gefur hann út eftir að hafa að eigin sögn verið í mótþróa gegn tónlist í nokkur ár eftir tónlistarnám í Skotlandi.