Búið er að bólusetja 18,7 milljónir Breta gegn kórónuveirunni, að því er heilbrigðisyfirvöld greindu frá í dag. Þeim hefur fjölgað um 449 þúsund frá því í gær. Þá hafa yfir 700 þúsund verið bólusett tvisvar.
Þessi góði gangur varð til þess að viðbúnaðarstig vegna faraldursins var lækkað í dag úr fimm, - hinu hæsta, - niður í fjóra. Þar með er ekki lengur talin hætta á að breska heilbrigðiskerfið sligist vegna álags innan þriggja vikna.
Þrátt fyrir þetta er álagið enn mikið vegna fjölmargra COVID-19 sjúklinga á sjúkrahúsum landsins, en smitum fer fækkandi. Tæplega níu þúsund smit voru greind í gær. 323 andlát, sem rakin eru til faraldursins, voru tilkynnt.