Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forseti Hondúras segir ásakanir skaða samstarf

epa06264394 Ecuadorian President Lenin Moreno (R) and Honduran President Juan Orlando Hernandez (L) offer joint statements to the press after a private meeting at the Government Palace, in the city of Quito, Ecuador, 13 October 2017. Hernandez arrived to
Kjörnefnd segir að Juan Orlando Hernandez forseti hafi verið endurkjörinn. Mynd: EPA-EFE - EFE
Juan Orlando Hernandez, forseti Hondúras, varar bandarísk yfirvöld við því að trúa ásökunum um stuðning hans við eiturlyfjagengi. Þetta sagði hann á þjóðþingi Hondúras í gær. Hann segir það geta skaðað samstarf ríkjanna í baráttunni við gengin.

Nokkrir dagar eru síðan þingmenn Demókrata í öldungadeild Bandaríkjanna kölluðu eftir því að Bandaríkjaforseti beitti Hernandez viðskiptaþvingunum og rannsakaði hvort hann ætti þátt í eiturlyfjaviðskiptum landsins.

Segir glæpagengi vera að hefna sín

AP fréttastofan segir Hernandez ítrekað hafa neitað ásökunum gegn sér þegar nafn hans ber á góma í málum gegn samlöndum hans í Bandaríkjunum. Meðal þeirra sem hafa nefnt hann sem samverkamann er bróðir hans, sem segir forsetann vernda og taka við mútugreiðslum frá gengjunum.

Hernandez sagði fyrir þingi í gær að gengin væru með þessu að hefna sín á honum, sérstaklega Los Cachiros. Þeim væri í nöp við hann eftir að hann leyfði framsal félaga þess til Bandaríkjanna.

Vilja skipa nefnd í samstarfi við SÞ

Í frumvarpi bandarísku öldungadeildarþingmannanna segir að Bandaríkjastjórn megi ekki halda áfram að líta framhjá alvarlegri spillingu og mannréttindabrotum á efstu stigum stjórnkerfisins í Hondúras. Lagt er til að stöðva öryggisaðstoð við landið og loka á útflutning táragass, piparúða og gúmmíkúlna til öryggissveita í Mið-Ameríkuríkinu. Eins er kallað eftir því að ríkisstjórn Hondúras setji á laggirnar verkefni gegn spillingu í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, líkt og nágrannaríkið Gvatemala hefur gert með góðum árangri. Samtök Ameríkuríkja tóku þátt í svipuðu verkefni í Hondúras. Stjórn Hernandez ákvað að halda því verkefni ekki áfram eftir að samningur um það rann út, en það sýndi fram á að nokkrir þingmenn Hondúras væru flæktir í ýmis spillingarmál.