Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fjórði skjálftinn yfir þrír að stærð frá miðnætti

25.02.2021 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjálfalísa
Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 fannst vel á höfuðborgarsvæðinu klukkan 14:35 í dag. Skjálftinn átti upptök sín 1,5 km SV af Keili. Hann er sá stærsti sem mælst hefur síðan á fjórða tímanum í nótt og fjórði skjálftinn sem mælist af stærðinni 3 eða stærri síðan á miðnætti. Rétt áður mældist annar þrír að stærð nærri Fagradalsfjalli.

„Við erum komin með yfir 2000 skjálfta frá miðnætti,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni. „Við getum við búist við stærri skjálftum eins og komu núna um hálf þrjú.“

Skjálftarnir klukkan hálf þrjú fundust á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum. „Við höfum fengið tilkynningar af þessum yfir þremur að stærð sem hafa fundist. Við erum ekki búin að vera að fá mikið af tilkynningum um þessa minni. Það er ekki ólíklegt að einhverjir af þeim hafi verið að finnast sérstaklega á Reykjanesinu, í Grindavík og þar í kring, þó að fólk láti ekki endilega vita,“ segir Bryndís jafnframt.

Stærsti skjálftinn í þessari hrinu mældist sex mínútur yfir tíu í gærmorgun, 5,7 að stærð. Fjöldi skjálfta yfir þremur að stærð mældist næsta klukkutímann á eftir, einn þeirra var af stærðinni fimm og nokkrir yfir fjórum að stærð.

Hættustig vegna jarðskjálftanna er í gildi á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og í Árnessýslu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV