Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fékk nektarmyndir af dóttur sinni inn um lúguna

Mynd: RÚV / RÚV
Tinna Ingólfsdóttir var aðeins 13 ára þegar hún var beitt stafrænu kynferðisofbeldi. Hún sendi manni sem hún treysti nektarmynd af sér sem fór í mikla dreifingu á netinu. Í Kastljósi í kvöld segir Inga Vala sögu Tinnu sem lést aðeins 22 ára að aldri.

Talaði fyrir daufum eyrum lögreglu

Málið hafði mikil áhrif á Tinnu og foreldra hennar sem leituðu til lögreglu en töluðu fyrir daufum eyrum. Þrátt fyrir það barðist Tinna áfram fyrir því að opna umræðuna um dreifingu nektarmynda allt þar til hún varð bráðkvödd árið 2014. 

„Þarna er hún sko rétt að verða 16 ára“

„Sumarið eftir, þá fáum við allt í einu inn um lúguna umslag sem var stílað á mig, með myndum og þá svona sökk í manni hjartað, þá voru það eitthvað af þessum myndum sem hún hafði sent til einhverra aðila þar sem hún er í rauninni að sýna sig á kynferðislegan hátt og það í rauninni kallar fram allar manns erfiðustu tilfinningar. Þarna er hún sko rétt að verða 16 ára,“ segir Inga Vala Jónsdóttir, móðir Tinnu.

Rætt við saksóknara

Í Kastljósi í kvöld segir Inga Vala sögu Tinnu, ræðir samskipti sín við lögreglu vegna málsins og baráttu Tinnu fyrir því að skila skömminni áður en hún lést aðeins 22 ára að aldri. Þá ræðir Einar Þorsteinsson við Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara um hvernig ákæruvaldið getur beitt nýjum lögum um kynferðislega friðhelgi sem samþykkt voru á dögunum og reynslu danskra yfirvalda sem skáru upp herör gegn stafrænu kynferðisofbeldi og ákærðu hundruð ungmenna fyrir nokkrum árum.

Mynd með færslu
 Mynd: Inga Vala Jónsdóttir - RÚV
Tinna Ingólfsdóttir