Áfram stuttir tónleikar en fleiri áhorfendur
Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í kvöld áfram tónleikahaldi sínu eins og það hefur verið undanfarnar vikur. Boðið er upp á ríflega klukkustundar langa tónleika án hlés á fimmtudagskvöldum kl. 20. Undanfarnar vikur hefur nýráðinn aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar, hin finnska Eva Ollikainen verið við störf og þannig náð að þróa starfssamband sitt við sveitina með miklum ágætum. Ollikainen stjórnar tónleikunum í kvöld en eins og undanfarið eru þeir kynntir á sviði af Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, viðburða- og skipulagsstjóra sveitarinnar.
Vegna rýmkana hjá hinu opinbera hefur hljómsveitin náð að bæta við á síðustu stundu nokkrum miðum í salinn á þessa safaríku tónleika en þeir verða einnig í beinni útsendingu hér hjá okkur á Rás 1 og í beinu myndstreymi á sinfonia.is.
Óbókonsert og ægifegurð Wagners
Og í kvöld verður boðið annars vegar upp á tónlist tékkneska tónskáldsins Bohuslavs Martinú, þegar Julia Hantschel, leiðari óbódeildar sveitarinnar, tekst á við óbókonsert tónskáldsins og hins vegar verður tónlist sjálfs Richards Wagners í forgrunni. Fá tónskáld höfðu líklega meiri áhrif á tónlist framtíðarinnar en einmitt Wagner.
Hljómsveitin leikur forleikinn og Liebestod (Ástardauðann) úr einni þekktustu óperu tónsskáldsins, Tristan og Ísold frá árinu 1865, tónlist sem sannarlega olli straumhvörfum. Þarna er um að ræða einhverja fallegustu tónlist sem vestræn tónlistarsaga geymir, en um þetta leyti var að myndast upplausn í hefðum vestrænnar tónlistar, tónmálið fór að losna frá rígbundnu tóntegundakerfi.
Síðan verða á efnisskrá tónleikanna Wesendonck-söngvarnir eða Wesendonck-ljóðin eftir Wagner, munúðarfull tónlist sem hann samdi við ljóð meintrar ástkonu sinnar Mathilde Wesendonck, í það minnsta mjög kærrar vinkonu. Einsöngvari í þessum ljóðum verður ástralski tenórsöngvarinn Stuart Skelton sem er heimsþekktur, ekki síst fyrir flutning sinn á tónlist Wagners.
Tónlist fyrir nýja tíma
Stuart Skelton má vel telja einn af tengdasonum Íslands, hann er giftur Geirþrúði Ásu Guðjónsdóttur fiðluleikara, og hefur skiljanlega einkum starfað hér á landi á undanförnum mánuðum, til dæmis verið við störf sem kennari í Listaháskóla Íslands.
„Enginn veit fyrir víst hvort Wagner og Matthilde Wesendonck, höfundur ljóðanna og eiginkona velgjöarðarmanns Wagners, áttu í ástarsambandi,“ segir Stuart Skelton. „Hvað nákvæmlega gerðist milli þeirra skiptir kannski ekki öllu máli. Mér finnst mikilvægast að átta sig á því að Wagner var í þessum söngvum að nota tónlistarhugmyndir og einingar sem áttu eftir að verða það sem við þekkjum í dag sem óperuna um elskendurna Tristan og Ísold. Í þessari tónlist, og alveg greinilega í tveimur lagana í flokknum, sjáum við hvert hann stefnir. Þessi tónlist gefur því ótrúlega innsýn í sköpunarferlið. Slík innsýn er sjaldgæf og ekki síst hjá manni sem að breytir tónlistarsögunni með svo dramatískum hætti og átti við um Wagner. Hann tók tónlistarleikhúsið í algjörlega nýjar áttir. Það er dálítið eins og hann sé að nálgast tindinn í sköpun sinni í þessari tónlist,“ segir Stuart Skelton.
Tónlist Wagners stendur hjarta söngvarans nærri því að Wagner hefur verið stór hluti af ferli Skeltons. „Wagner hefur verið líklega svona 85 % af mínum söngferli og þá ekki síst hlutverk Tristans sem ég hef sungið margoft. Mér finnst því ótrúlega áhugavert að sjá hvernig þessi verk tengjast.“