Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldaði hjarta nágranna handa fórnarlömbum sínum

25.02.2021 - 06:27
A police line (police tape) established at the scene of a car crash in the Cedar-Riverside neighborhood of Minneapolis, Minnesota.
 Mynd: Tony Webster/Wikicommons
Bandaríkjamaður sem sakaður er um þrefalt morð er sagður hafa eldað hjarta eins fórnarlamba sinna og gefið hinum tveimur að borða áður en hann réðist á þau. Þetta kom fram í fjölmiðlum vestanhafs í gær.

Að sögn AFP fréttastofunnar er hinn grunaði, Lawrence Paul Anderson, sagður hafa skorið hjartað úr nágranna sínum, sem hann stakk til dauða. Hann tók hjartað með sér heim til frænda síns og eldaði handa frændanum og eiginkonu hans. Í leitarheimild sem lögð var fyrir dómstóla segir að hann hafi gefið þeim hjartað að borða til þess að bola hinu illa úr þeim. Að máltíðinni lokinni drap Anderson frænda sinn og fjögurra ára dóttur hans, auk þess sem hann særði eiginkonu frænda síns illa. 

Morðin framdi Anderson 9. febrúar, aðeins nokkrum vikum eftir að Kevin Stitt, ríkisstjóri Oklahoma, veitti honum lausn úr fangelsi. Hann hlaut tuttugu ára fangelsisdóm árið 2017 vegna fíkniefnabrota, en hann á að sögn AFP langa afbrotasögu. Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs játaði Anderson á sig morðin fyrir dómi á þriðjudag.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV