Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Álag á starfsfólk hins opinbera hefur aukist mikið

25.02.2021 - 08:59
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Meira en helmingur launafólks finnur fyrir auknu álagi í starfi vegna kórónuveirufaraldursins, samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir BSRB. Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir aukið álag mikið áhyggjuefni.

Álag eykst meira á opinbera starfsmenn

Rúm 55 prósent svarenda segja álag í starfi hafa aukist. Álag hefur aukist meira hjá starfsfólki á opinberum markaði en almennum markaði; 64 prósent starfsfólks hins opinbera segjast finna fyrir auknu álagi sökum faraldursins. Það eru talsvert fleiri en þegar samskonar könnun var gerð í apríl 2020 og um 53 prósent fundu fyrir auknu álagi í starfi vegna faraldursins. Tæp 47 prósent starfsfólks á almennum markaði segist finna fyrir auknu álagi í starfi.

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB

„Við höfum bent á það frá því að faraldurinn hófst að álagið hefur aukist hjá opinberum starfsmönnum og þeim sem eru í framlínu í baráttunni við faraldurinn. Þetta er mikið áhyggjuefni og við höfum lagt mikla áherslu á að það sé brugðist við svo það verði ekki langtíma-neikvæð áhrif á þá sem eru undir álagi í langan tíma,“ segir Sonja í viðtali við fréttastofu. „Og við vitum líka að hið opinbera var skorið mjög bratt niður eftir hrunið svo að álagið var mikið áður en kom að faraldrinum,“ segir hún. 

Og hvernig má koma í veg fyrir það?

„Fyrsta skrefið er að tryggja fólki hvíld að lokinni hverri bylgju. En síðan er hægt að gera það með fjölþættum stuðningi eins og viðtölum eða með því að auka hvíld,“ segir Sonja.

Fleiri gæðastundir

60 prósent svarenda segjast hafa átt fleiri gæðastundir með fjölskyldu eftir að faraldurinn skall á. Tæp 15 prósent sögðu gæðastundum hafa fækkað.

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB

 

„Það má geta sér til um að það hafi áhrif að það falli niður frístundastörf hjá börnum og tími í skólastarfi styttist að einhverju leyti og að þá sé samverutíminn meiri og fólk hafi hægt á sínu tempói. Fólk er að hætta að sinna ýmsu aukalega og þá nái fjölskyldan að vera meira saman,“ segir Sonja.

Könnunin

Maskína gerði könnunina fyrir BSRB og hún var lögð fyrir þjóðargátt Maskínu, sem er handahófskennt úrtak fólks 18 ára og eldri. Gögnin voru vegin til samræmis við tölur Hagstofu Íslands svo hópurinn endurspegli þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu. Könnunin var gerð dagana 12. til 20. janúar 2021 og svarendur voru 1.183 talsins.