Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Áhrif COVID mest á yngstu aldurshópana

25.02.2021 - 17:00
Mynd: RUV / RUV
Samkvæmt könnunum, sem Gallup gerir mánaðarlega fyrir Landlæknisembættið um líðan fólks, er ekki marktækur munur á líðan fullorðinna í fyrra miðað við árið 2019. Hins vegar kemur fram, þegar niðurstöðurnar eru sundurliðaðar, að COVID-19 virðist einkum hafa haft áhrif á aldurshópinn 18-34 ára. Innan þessa hóps er verri andleg heilsa, minni hamingja, meiri streita og einmanaleiki

Virk, Embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins efndu til fundar í morgun þar sem kastljósinu var meðal annars beint að líðan starfsfólks á vinnumarkaði og leiðum til að efla velsæld á tímum Covid. Rætt var við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Lýðheilsusviðs hjá embætti Landlæknis og Gunni Líf Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðsmála hjá Samkaupum í Speglinum.

Dóra Guðrún segir að aldurshópurinn 18-34 ára virðist skera sig úr.

„Fyrir að vera með lægra hlutfall sem upplifir góða andlega heilsu og við sjáum líka meiri streitu, meiri einmanaleika og minni hamingju.“

Einmanaleiki jókst í sumar

Dóra Guðrún segir að þeir eldri komi betur út. Suma mánuði mældist streita þeirra minni en 2019 og í ákveðnum mánuðum var einmanaleikinn minni. Hún segir að athyglisvert sé að skoða breytingar sem urðu í sumar.
 
„Þegar létt var á takmörkunum í sumar þá fórum við að sjá meiri einmanaleika hjá ungu fólki. Það er eins og að það séu einhvers konar verndandi þættir þegar við erum að takast á við mestu kúfana í þessu kóvidi. Það er mikilvægt núna þegar við förum að létta á aftur að huga að því hvaða áhrif það hefur. Það eru þarna ákveðin rauð ljós sem við þurfum að horfa á,“ segir Dóra Guðrún.
  

Var mikil óvissa

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Samkaupum, bendir á að stærsti hópur starfsmanna sé einmitt í þessum aldurshópi, 18-34 ára. Hún segir að fyrsta bylgjan hafi verið erfiðari en þær sem komu á eftir. Þá hafi verið mikil óvissa. Starfsmenn hafi verið í miklu návígi við viðskiptavini og aðra starfsmenn alla daga.

„Þetta er ákveðið andlegt álag. Það var mikill ótti og hræðsla við smit, bæði hjá starfsmönnum og aðstandendum þeirra.“ Hún segir að innanhúsmælingar í miðri fyrstu bylgjunni hafi sýnt ánægju, mikla þrautseigju og samheldni.

„Þegar slakað var á í maí, júní þá er það tíminn sem að ánægjan dettur niður. Þannig að það rímar við það sem Dóra er að segja.“

Hjónabandsráðgjöf í boði fyrir starfsmenn

Á fundinum í morgun kom fram að Samkaup bjóða starfsmönnum upp á velferðarþjónustu. Þeir geta sér að kostnaðarlausu fengið fjármálaráðgjöf, fjölskylduráðgjöf, sálfræðiráðgjöf og hjónabandsráðgjöf svo eitthvað sé nefnt. Aðstoðin getur numið allt að 6 klukkustundum á ári.

„Við horfðum upp á það í covid að ánægjan fór niður og fleiri starfsmenn leituðu sér aðstoðar hjá okkur stjórnendum. Í kjölfar covid gáfum við öllum starfsmönnum einn tíma í andlega upplyftingu hjá sálfræðingi. Það var mikil ánægja með það og hjálpaði mörgum. Þannig að við ákváðum að taka þetta lengra. Bæði með því að opna umræðuna meira og hafa þetta breiðara svið, ekki bara sálfræðiráðgjöf. Við vitum að stundum vantar okkur fagmenn til að spegla málin með. Þannig að við settum upp velferðarþjónustuna og gefum starfsmönnum allt að sex klukkustundir í velferðarþjónustu sem þeir geta notað í allt frá hjónabandsráðgjöf, fjölskylduráðgjöf, fíkniráðgjöf, áfallahjálp, endurhæfingu, svefnmeðferð. Í rauninni er þetta algjörlega opið,“ segir Gunnur Líf.

Nánar má hlusta á viðtal við Gunni Líf og Dóru Guðrúnu í spilaranum hér að ofan.