Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Á þriðja hundrað skjálftar frá miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Jörð skelfur enn á Reykjanesskaga. Frá miðnætti og til klukkan 7 í morgun hafa sérfræðingar Veðurstofu Íslands staðfest 242 skjálfta þar.

Tuttugu af þessum skjálftum voru stærri en 2 og þar af tveir stærri en 3, annar rétt fyrir klukkan 1 í nótt og var 3,1 að stærð. Hinn varð um klukkan hálf fjögur og mældist af stærðinni 3,4.

57 skjálftar stærri en 3 hafa mælst síðan klukkan sex mínútur yfir tíu í gærmorgun, þegar skjálfti af stærðinni 4,3 reið yfir og annar af stærðinni 5,7, sem varð 20 sekúndum síðar.

Í kjölfar hrinunnar í gær var hættustigi lýst yfir á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesskaga og í Árnessýslu. Hættustig er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.