Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Verðum að vera búin undir stærri skjálfta

24.02.2021 - 12:50
Mynd: Skjáskot / RÚV
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að nú nái mikill óstöðugleiki greinilega yfir stórt svæði. Jarðskjálftarnir í morgun hafa verið milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Hins vegar hafa engir skjálftar fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári. Þar hafa í sögunni orðið skjálftar að stærð 6,5. Það gæti verið vísbending um að það svæði sé læst og losni ekki um það nema í stærri skjálfta. Engar vísbendingar eru um gosóróa enn sem komið er.

„Þetta er mjög kröftug hrina og hún er að raða sér á svæði alveg frá Núpshlíðarhálsi og að Sílingarfelli, við getum hugsað okkur milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar, skjálftarnir eru að raða sér upp á þessu svæði,“ sagði Kristín í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur í aukafréttatíma í sjónvarpi í hádeginu. „Hrinan byrjaði austan við Fagradalsfjall og svo flutti hún sig nær Krýsuvík í Núpshlíðarháls.“

„Það er mikil virkni á þessu svæði, við þekkjum það alveg, en ég hef ekki áður upplifað svona kröftuga hrinu eða fundið svona marga skjálfta á stuttum tíma hérna í byggingunni, þannig að þetta er óvenjulegt.“

Ekkert bendir til þess að skjálftarnir í morgun tengist eldsumbrotum, sagði Kristín. Þó hefur fólk verið sent af stað til að mæla gas. Ummerki um kvikugos, ef eitthvert væri, gætu sést í gasmælingum.

„Þetta er greinilega mikill óstöðugleiki sem nær yfir stórt svæði,“ sagði Kristín. Náttúruvársérfræðingar áttu nýlega fund með Almannavörnum. „Við erum í einhverjum atburði núna. Við teljum að meðan þessi óstöðugleiki er í gangi þá eru auknar líkur á því að það verði enn þá fleiri skjálftar og jafnvel stærri skjálftar.“

Engir skjálftar hafa mælst á svæðinu frá Kleifarvatni að Bláfjöllum allt þetta ár. „Það gæti verið til marks um að það svæði sé hreinlega læst og að það brotni ekki nema í stærri skjálfta. Þar vitum við að hafa orðið stórir skjálftar, allt að 6,5. Við verðum að vera undir það búin, því miður, að við getum fengið jafnvel stærri skjálfta en við höfum verið að upplifa núna.“

Ekkert landris hefur mælst á þessu ári, ólíkt því sem gerðist í fyrra þegar mikið landris var vestan við Þorbjörn og við Krýsuvík.