Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Prentmet Oddi kaupir þrotabú Ásprents

24.02.2021 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Prentsmiðjan Prentmet Oddi hefur fest kaup á eignum úr þrotabúi Ásprents sem tekið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mánaðarins. Búið er að ráða sex starfsmenn í fullt starf en alls störfuðu 20 manns hjá Ásprent.

Efla tækjakost

Það er Vikudagur sem greinir frá þessu í morgun en þar er haft eftir Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Prentmets Odda að á Akureyri verði sérstök eining sem þar sem efla á stafræna prentun og límmiðaprentun Þá verði tækjakostur efldur. 

Á vef Vikudags segir að ekki sé búið að ákveða hvort svokölluð offset prentun  verði áfram í Ásprent en blöð eins og Dagskráin og Vikublaðið heyra undir slíka prentun. „Við gerum ráð fyrir því að offsetprentun fari fram í Reykjavík en þó er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Við munum skoða það betur,“ segir Guðmundur í samtali við Vikudag. 

Sex starfsmenn ráðnir

Þegar er búið að ráða sex starfsmenn í fullt starf nýrrar prentsmiðju en  20 manns unnu hjá  Ásprent. Fulltrúar Prentmets Odda munu koma til Akureyrar á morgun, funda með starfsfólki og fara yfir næstu skref.