Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýir kynnar á Skrekk

Mynd með færslu
 Mynd:

Nýir kynnar á Skrekk

24.02.2021 - 16:35

Höfundar

Hólmfríður Hafliðadóttir og Mímir Bjarki Pálmason eru nýir kynnar Skrekks, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur. Þau taka við af Mikael Emil Kaaber og Berglindi Öldu Ástþórsdóttur sem hafa verið kynnar síðustu þrjú ár og skemmt áhorfendum í sal og heima í stofu.

Mímir og Hólmfríður eru upprennandi leikarar sem stefna á nám í sviðslistum í haust en þau hafa ólíka reynslu af Skrekk. „Því miður tók ég ekki þátt í Skrekk, skil eiginlega ekki af hverju, en það er fátt sem ég sé jafn mikið eftir. Þannig krakkar, ef þið hafið aldrei verið í Skrekk og fáið tækifærið, ekki hika við að prófa. Þið munið held ég aldrei sjá eftir því,“ segir Mímir. „Ég hefði verið geðveikt til í að keppa, aðallega bara til að kynnast öllum krökkunum frá öðrum skólum, skapa góðar minningar með vinum mínum og búa til geggjaða sýningu sem ég og hópurinn minn værum stolt af.“

Hólmfríður keppti fyrir hönd Laugalækjarskóla árið 2015. „Mér fannst ógeðslega gaman, það var geggjað að fá að sýna á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu, því það er svo alvöru. Ég man líka hvað ég var stolt af atriðinu mínu og hvað hópurinn var samheldinn. Mjög góð minning,“ segir Hólmfríður.

Þau eru sammála um að Skrekkur sé mjög mikilvægur fyrir unglinga. „Mér finnst það vera mikilvægt fyrir krakka að geta tjáð sig um hvað sem er milli himins og jarðar. Skrekkur er svo mikill grundvöllur fyrir það. Þar dæmir þig enginn og allir fá að sýna hvað liggur þeim á hjarta,“ segir Mímir.

Að sögn Hólmfríðar er Skrekkur góð leið fyrir unglinga til þess að taka pláss og láta í sér heyra. „Þau fá að sýna hugmyndir sínar og það kemur alltaf á óvart hve hæfileikarík og lausnamiðuð þau eru. Þetta er yfirleitt fyrsta skref flestra í sviðslistum, og þá er ótrúlega gaman hvað umgjörðin er flott“.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á skipulag og undirbúning keppninnar og flestir eru orðnir langeygir að komast á svið. „Við erum öll þreytt eftir COVID og krakkarnir eru búnir að bíða lengi eftir keppninni svo við Mímir ætlum að halda uppi góðri stemningu með léttu gríni,” segir Hólmfríður.

Fyrsta undankvöld Skrekks af þremur er 1. mars og hægt verður að fylgjast með á vefsíðu UngRÚV í beinu streymi. Úrslitin ráðast svo á lokakvöldinu 15. mars í beinni útsendingu á RÚV.