Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugvél Icelandair á leið til Suðurskautsins

24.02.2021 - 22:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Boeing 767 farþegaþota Icelandair er nú á leið frá Íslandi á Suðurskautslandið að sækja norska vísindamenn sem hafa verið þar við störf. Flugvélin flýgur í einni atrennu alla leið frá Keflavík til Höfðaborgar í Suður-Afríku, hátt í tólf þúsund kílómetra vegalengd. Þaðan verður flogið til Suðurskautslandsins og lent á ruddri flugbraut á ísnum.

Flugvélin tók á loft frá Keflavíkurflugvelli klukkan rétt rúmlega sex í kvöld. Þegar þetta er skrifað er flugvélin búin að vera fjóra og hálfa klukkustund á leiðinni. Henni var flogið framhjá Portúgal fyrir stundu og er nú kominn inn yfir land í Marokkó. Þaðan verður henni flogið yfir Máritaníu, Malí og fleiri lönd áður en henni verður flogið aftur út á sjó á leið sinni til Höfðaborgar. Þar tekur flugvélin eldsneyti og heldur för sinni áfram. Þegar norsku vísindamennirnir verða komnir um borð verður flugvélinni snúið við. Þá verður farið aftur um Höfðaborg og þaðan til Ósló áður en flugvélin snýr aftur til Íslands. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem flugvél Icelandair lendir á Suðurskautslandinu. Það gerðist líka árið 2015. Þá var Boeing 757 þota flugfélagsins fyrsta farþegaþotan til að lenda á Suðurskautslandinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV