Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

ESB gagnrýnir aðgerðir sex aðildarríkja

24.02.2021 - 10:14
epa09021270 Police officers control a car at the border crossing checkpoint at the German-Czech border near Bad Gottleuba, Germany, 18 February 2021. Germany has reintroduced border controls from the Czech Republic and Austria due to the increasing number of cases of the coronavirus mutations.  EPA-EFE/FILIP SINGER
Þýskir lögreglumenn við eftirlit á landamærunum við Tékkland. Mynd: EPA-EFE - EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gagnrýnir þær hertu sóttvarnaraðgerðir sem Þýskaland og fimm önnur aðildarríki hafa tekið upp á landamærum sínum vegna kórónuveirufaraldursins og segir þær tilefnislausar. Framkvæmdastjórnin hefur sent formlegt bréf um úrbætur og væntir svara í næstu viku.

Auk Þýskalands hafa stjórnvöld í Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Ungverjalandi gripið til hertra aðgerða við landamæri sín með það að markmiði að takmarka utanaðkomandi smit.

Þann fjórtánda þessa mánaðar tóku Þjóðverjar upp aukið eftirlit við landamæri Tékklands, Slóvakíu og Týrólhéraðs í Austurríki, en stjórnvöld í Berlín óttast að þriðja bylgja kórónuveirusmita sé að skella á í Þýskalandi.

Verða þeir sem koma til landsins frá þessum stöðum að sýna vottorð um að vera ekki með kórónuveirusmit. Þúsundum hefur verið snúið við á landamærunum síðan þessar aðgerðir hófust.

Framkvæmdastjórnin segir í bréfi sínu að ekki hafi verið þörf að grípa til svona róttækra aðgerða til að ná settum markmiðum og grannríki gagnrýna Þjóðverja fyrir að hafa ekki látið vita af þeim með nægilegum fyrirvara.

Þýskir ráðamenn vísa allri gagnrýni á bug og segjast hafa farið að einu og öllu í samræmi við lög og reglur Evrópusambandsins. Þau stefni að því að aflétta þessum nýju takmörkunum sem fyrst.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV