Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Eins og að sitja á öldu“

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
„Þetta var eins og að sitja á öldu, ég sat hérna í hægindastól og þetta var bara svona þægileg alda,“ segir Svanur Fannberg Gunnarsson, eigandi Litlu kaffistofunnar, um fyrsta stóra skjálftann í skjálftahrinunni á Reykjanesskaga í morgun. Hann hefur ekki orðið var við neitt tjón og segir að ekkert hafi dottið úr hillum.

Og á Hvolsvelli hristist mjólkurkælirinn á kennarastofunni í grunnskólanum. „Það var akkúrat kaffitími hjá kennurum hérna. Við sátum inni á kaffistofu og fundum þetta mjög vel. Mjólkurkælirinn hristist til. Nemendur voru margir pínu æstir þegar þeir komu inn úr frímínútur,“ segir Elísabet kennari í Grunnskólanum á Hvolsvelli. 

Og skjálftarnir fundust líka vel í Hafnarfirði: „Sjónvarpið hjá mér, ég var svo hræddur um að það myndi skella í gólfið, það nötraði alveg, ég var bara á leiðinni að halda í það,“ segir Cecil Viðar Jenssen, íbúi á Völlunum í Hafnarfirði. Hann segist ekki muna eftir öðrum eins hristingi síðan á 17. júní árið 2000.