„Ég var búin að búa mig undir óvissuna“

Mynd: Music Finland / Music Finland

„Ég var búin að búa mig undir óvissuna“

24.02.2021 - 14:40

Höfundar

Anna Hildur Hildibrandsdóttir fylgdi Hatara-hópnum til Ísraels þegar hljómsveitin tók eftirminnilega þátt í Eurovision árið 2019 og gerði heimildarmynd um ferðalagið. Hópnum tókst að valda nokkrum pólitískum titringi á svæðinu og þegar stigin voru kynnt á úrslitakvöldinu supu margir hveljur þegar liðsmenn sveitarinnar drógu upp palenstínska fánann og veifuðu honum fyrir framan myndavélarnar.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir kvikmyndagerðar- og fjölmiðakona er nýflutt heim frá London þar sem hún var búsett í þrjá áratugi. Í Segðu mér á Rás 1 sagði hún frá borgarlífinu í London, fjölmiðlabransanum og Eurovision-myndinni A song called hate sem hefur ferðast um heiminn og fer loksins að rata á skjáinn.

Hefur kjark til að gera það sem öðrum finnst erfitt

Anna Hildur tekur undir að hún sé kjörkuð og segist hafa hugrekkið frá foreldrum sínum. „Pabbi heitinn og mamma, sem er enn á lífi, eru bæði ótrúlega dugleg og klár og þau hafa gert margt skemmtilegt í lífinu. Mér finnst gaman að ögra og takast á við áskoranir,“ segir hún. „Ég hef oft kjark til að gera það sem öðrum finnst erfitt að gera.“

Anna Hildur tók BA-próf í íslensku og kennsluréttindum og eignaðist í leiðinni tvær dætur. Hún var orðin þreytt og dreymdi um að vera heimavinnandi húsmóðir. Eiginmaður hennar hafði nýlokið námi í prentsmiðju og langaði að læra grafíska hönnun. Þau ákváðu að flytja til London og vera þar í þrjú ár sem á endanum urðu þrjátíu.

Gerði pistil um Sykurmolana og hefur verið í fjölmiðlum síðan

Eftir þriggja mánaða dvöl í stórborginni varð Anna Hildur leið á að vera heima í tilbreytingarleysi og tók því fegins hendi þegar Heimir Már Pétursson kynnti hana fyrir Elínu Hirst sem bað hana að verða fréttaritari. „Ég var reyndar mjög hrædd við það, hafði ekki kjark. Hafði aldrei unnið við fjölmiðla og skildi ekki hvernig þeim datt þetta í hug, ég væri ekki með rödd í þetta,“ segir hún. Þetta var árið 1991 þegar stjarna Sykurmolanna skein sem skærast. Anna Hildur gerði vel heppnaðan pistil um hljómsveitina. „Ég komst í gegnum það og hef verið viðloðandi fjölmiðla síðan.“

Engin viðbrögð við fráfalli kennarans

Stærsta fréttavaktin sem Anna Hildur stóð var þegar Díana prinsessa lést árið 1997. Hún var við jarðarförina og segir að það hafi verið sérstök lífsreynsla. Það hefði verið sem öll þjóðin væri niðurbrotin af sorg.

Sérstaklega kom á óvart hvað fólk lét í ljós miklar tilfininngar yfir fráfalli Díönu því að sama ár hafði uppáhaldskennari dætra hennar látist og þá voru engin viðbrögð sýnd. „Bretar eru svo sérstakir með að syrgja, lítið talað um þetta og svona.“

Fjölskylda Önnu Hildar var sú eina úr skóla dætranna sem var við jarðarför kennarans. „Okkur fannst mjög mikilvægt að stelpurnar fengju að kveðja hana því hún var mikilvæg í þeirra lífi,“ segir hún. „Pabbi dó líka þetta sama ár svo ég hafði upplifað mikla sorg.“

Blaðamönnum boðið að leggjast á bæn

Þegar Díana lést var sem þjóðin færi saman í gegnum mikið sorgarferli. „Það var mjög sérstakt að upplifa, ég áttaði mig ekki á þessu og var lengi að skilja hvað væri í gangi,“ rifjar hún upp. „Ég man í lestinni á leið í jarðarförina, ég sá nágrannakonu mína sem átti heima í nærliggjandi húsum og við höfðum aldrei talað um neitt meira en veðrið en þarna gátum við farið að tala um Díönu og sorgina.“

Blaðamönnum stóðu til boða bænastundir sem margir nýttu sér. „Það var mjög sérstakt og mögnuð tilfinning en hún var ótrúleg kona, prinsessa fólksins, og þarna kom það í ljós.“

Sex mánuðum eftir fráfall kennarans fengu börn og starfsfólk skólans tækifæri til að minnast hennar saman á sal. Anna Hildur veltir fyrir sér hvort dauði Díönu hafi opnað leið fyrir Breta til að syrgja saman þá sem standa þeim nærri.

Saknar fjölskyldunnar í London

Eftir að niðurstaða BREXIT varð ljós fór Önnu Hildi að langa að snúa aftur til Íslands eftir þriggja áratuga dvöl í London. Þegar brast á með heimsfaraldri tókst henni að sannfæra eiginmanninn um að láta á það reyna. Anna Hildur nýtur sín afar vel hér á landi en saknar yngri dóttur sinnar og barnabarna sem eru enn úti.

„Vorum sammála um að þetta gæti verið áhugaverð mynd“

Þegar Hatari tók þátt í Söngvakeppninni hafði Anna Hildur verið aðdáandi hljómsveitarinnar um hríð, fannst hún áhugaverð og textarnir beittir. „Ég hef áhuga á pólitík og fannst sem ferskur vindur að koma með svona pólitískar yfirlýsingar,“ segir hún um textasmíðina. Hún var jafn hissa og aðrir þegar sveitin ákvað að senda lag í Eurovision. „Ég var bara: Ha, hvað er þetta? En áttaði mig á því að þetta væri enn ein leiðin til að prófa hvar mörkin liggja og hvernig þeir geta komið skilaboðunum á framfæri.“

Hún ræddi við vini sína, Ian Forsyth og Jane Pollard, sem höfðu stofnað með henni kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Tattarrattat. „Við vorum sammála um að þetta gæti orðið áhugaverð heimildarmynd ef þeir myndu vinna á Íslandi og ef þeir myndu fara. Ef þeir hefðu það í sér, því það var ekki ljóst á þessum tíma að þeir myndu gera það,“ segir Anna Hildur. Hún flaug til Íslands fyrir lokakvöldið og fylgdist með keppninni. Morguninn eftir tókst henni að selja hugmyndina um að gera myndina og settist sjálf í leikstjórastólinn. Hún fylgdi Hatara eftir í átján daga í Ísrael og Palestínu og kynntist palenstínskum samstarfsmönnum sveitarinnar og ísraelskum listamönnum.

Bashar Murad fór að missa trú á gjörningnum og varð órólegur

Í Ísrael kynntist Hatari meðal annars palenstínska tónlistarmanninum Bashar Murad sem sveitin hefur unnið með síðan. Hann og faðir hans eru þekktir í Palestínu. Þeir reka hljóðver í Jerúsalem sem er ætlað að vera vettvangur fyrir unga palenstínska listamenn til að láta rödd sína heyrast.

„Ég var bara búin að búa mig undir að ég væri að fara í óvissuna, að ég yrði að taka hverjum degi eins og hann kæmi. Ég vissi að ég yrði að vakna snemma, fara seint að sofa og að það yrði mikið að gera,“ segir Anna Hildur og það stóð heima.

Þegar leið á ferðalagið varð Bashar Murad órólegur yfir samstarfinu og tók að missa trúna á að það kæmi eitthvað frá Hatarahópnum, og að þeim tækist að vekja athygli á málefnum Palestínu í keppninni. Sveitin hafði þá þegar fengið orð í eyra og verið hótað brottrekstri úr keppninni ef hún virti ekki reglur um að tjá sig ekki um pólitísk mál meðan á henni stæði. En það hefði ekki þjónað tilgangi ferðalagsins að vera hlýðin.

Stressandi að fara með fánana yfir landamærin

Anna Hildur var í stúdíóinu með Bashar Murad þegar skilaboð bárust frá Hatara um að þau væru að reyna að útvega palenstínskan fána eða borða til að sýna á úrslitakvöldinu. Þau voru tilbúin að gera nokkurnveginn allt til að gera þeim það kleift en það var allt lokað vegna föstumánaðarins, Ramadan, og því erfitt að komast yfir fána.

Í ljós kom að hljóðmaðurinn átti vin sem átti leikfangabúð í Ramallah og gat bjargað þeim um fána. Hópurinn hélt þangað og það var mikil spenna að smygla fánunum yfir. Vigdís Hafliðadóttir, fréttamaður Iceland Music news, faldi fánana inni á sér á meðan þau fóru yfir landamærin og það kemur allt fram í myndinni. „Ég vissi að þeir væru með fánana en ekki hvort þeir myndu taka þá upp,“ segir hún.

Fólk tekur andköf og klappar

Myndin hefur ferðast um heiminn og verið sýnd á fjölmörgum kvikmyndahátíðum. Anna Hildur fékk sjálf tækifæri til að sitja í salnum á sýningum í Reykjavík og Varsjá í Póllandi og hún segir að spennan sé rafmögnuð þegar fánarnir eru dregnir upp. „Það er ótrúleg tilfinning fyrir mig því fólk tekur andköf og klappar. Það er eins og fólk lifi sig inn í þetta með þeim,“ segir hún.

Tónlistarkonan Margrét Rán, úr hljómsveitinni Vök, gerir tónlistina við myndina og Anna Hildur segir að henni takist mjög vel að ýta undir tilfinningaþrungna spennuna í atburðarásinni. Í myndinni er sýnt frá ferðalaginu sjálfu og tekin viðtöl við þekkt fólk um sýn þess á uppátæki sveitarinnar. „Við erum með viðtöl við Ragnar Kjartans og Katrínu Jakobsdóttur því við vildum setja gjörninginn í stærra samhengi.“

Tók mikið á að fylgja þessu í gegn

Myndin heitir A song called hate og úr henni hafa verið gerðir þrír þættir sem sýndir verða á RÚV og eru kallaðir Hatrið. A song called hate hefur nú þegar fengið mjög góð viðbrögð og var meðal annars tilnefnd til Dragon-verðlaunanna sem besta norræna heimildarmyndin á síðasta ári. Sænska ríkissjónvarpið skrifaði umfjöllun um myndina með fyrirsögninni De Vågade ta ställing i Eurovision-bråket sem gæti útlagst: Þau þorðu að taka afstöðu í Eurovision-deilunni. „Þau fjölluðu um þetta á mjög jákvæðan hátt og það var gaman. Gaman að finna viðbrögðin og sjá að manni tekst að hreyfa við fólki og gera sögunni skil.“

Anna Hildur segir ljóst að Hatarahópurinn búi yfir miklum kjarki og hugrekki. Hún var sjálf ekki viss um hvort hópurinn yrði samdauna ferlinu eða tækist að koma skilaboðum til skila þegar upp yrði staðið. „Það var svo spennandi að fylgjast með og hvað þetta tók mikið á að fylgja þessu í gegn.“

Hatrið er á dagskrá á RÚV 1., 8. og 15. apríl.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Önnu Hildi Hildibrandsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Ætlar að pína barnabörnin til að erfa húsgögnin

Tónlist

Með væga áfallastreituröskun eftir Ísraelsför Hatara