Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dæmdur vegna ofbeldisverka í Sýrlandi

24.02.2021 - 11:46
Erlent · Asía · sýrland · Þýskaland · Evrópa
Syrian defendant Eyad Al-Gharib hides his face as he arrives to his hear his verdict in a court room in Koblenz, Germany, Wednesday, Feb. 24, 2021. A German court has convicted the former member of Syrian President Bashar Assad’s secret police of facilitating the torture of prisoners in a landmark ruling that human rights campaigners hope will set a precedent for other cases. (Thomas Lohnes/Pool Photo via AP)
Sakborningur í réttarsal í Koblenz í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - Pool AFP
Eyad al-Gharib, fyrrverandi starfsmaður sýrlensku leyniþjónustunnar, var í morgun dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Þýskalandi sakaður um að vera samsekur að glæpum gegn mannkyni. Þetta er fyrsti dómurinn sem kveðinn er upp í Þýskalandi vegna ofbeldis og pyntinga sýrlensku stjórnarinnar og er talinn geta orðið fordæmisgefandi. 

 

Gharib er gefið að sök að hafa aðstoðað við handtökur á mótmælendum í borginni Douma haustið 2011 og flutning á þeim í Al Khatib-fangelsið í Damaskus þar sem þeir sættu pyntingum.

Hann sneri baki við sýrlensku stjórninni 2012, flýði land ári síðar, dvaldi svo í Grikklandi og Tyrklandi, en kom til Þýskalands 2018. Þar var Gharib handtekinn 2019 eftir að fórnarlömb hans úr röðum flóttamanna báru kennsl á hann.

Einnig var þá handtekinn Anwar Raslan, fyrrverandi yfirmaður Gharibs, sem sakaður er um að hafa haft umsjón með pyntingum á allt að fjögur þúsund manns í Al Khatib-fangelsinu og hafa fyrirskipað aftökur á fimmtíu og átta manns. Ekki er búist við að réttarhöldum yfir honum verði lokið fyrr en í fyrsta lagi í október.

Þýsk stjórnvöld beita fyrir sér ákvæðum í alþjóðalögum til að rétta yfir mönnunum, en þau heimila ríkjum að sækja fólk til saka fyrir glæpi gegn mannkyni, þjóðarmorð og stríðsglæpi, hvar sem þeir voru framdir.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV