Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetningar á landsbyggðinni ganga samkvæmt áætlun

Bólusetningar við Covid-19 á landsbyggðinni hafa að mestu gengið samkvæmt áætlun og vel gengið að bólusetja helstu forgangshópa. Hlutfallslega flestir hafa verið bólusettir á Austurlandi.

Bóluefni er dreift landleiðina til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Bólusetningin þar er nokkuð samræmd og ekki mikill munur á vinnubrögðum milli landshluta. 

Segir að vel hafi gengið að bólusetja alla forgangshópa

„Það er embætti landlæknis sem sér um að dreifa bóluefninu og við bólusetjum eftir því sem bóluefni berst. Og hverja er verið að bólusetja í hvert skipti, það fer bara eftir tilmælum sóttvarnalæknis,“ segir Guðný Friðriksdóttir, framvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þar segir Guðný búið að bólusetja lækna og hjúkrunarfræðinga, sem sinna bráðaþjónustu, sjúkraflutningamenn og útkallslögreglu. Einnig íbúa á dvalarheimilum og fólk sem fær heimahjúkrun. Þá er áætlað að ljúka við að bólusetja 80 ára og eldri í næstu viku. „Svo erum við að byrja að bólusetja starfsfólk á hjúkrunardeildum með AstraZeneca bóluefninu. Það kom til okkar núna á þriðjudaginn og við munum klára það í þessarri eða næstu viku.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson

Hlutfallslega flestir bólusettir á Austurlandi

Eins og staðan er nú hafa hlutfallslega flestir verið bólusettir á Austurlandi. Vestfirðir eru þar í öðru sæti og Norðurland í því þriðja. Þetta hlutfall getur verið fljótt að breytast þegar til dæmis er bólusett á fjölmennum vinnustöðum eða ef aldraðir eru fleiri hér eða þar. „Það eru samráðsfundir vikulega þvert á landið þar sem er verið að fara yfir þessi mál. Og svo erum við með samráðsfundi líka innan okkar stofnunar til að skipuleggja bólusetningar vikulega,“ segir Guðný. „Þetta er stórt verkefni, en það eru allir á tánum við að gera sitt besta og láta þetta ganga vel upp. Eins og hefur verið raunin.“

Enginn eigi að missa af bólusetningu

Það er bólusett víða í hverju umdæmi og ýmist er fólk þá boðað á heilsugæslustöðvar eða aðra valda staði. Á Akureyri verður framvegis bólusett á slökkvistöðinni þar sem hópur fólks fékk sprautu í dag. Og Guðný segir að enginn eigi að missa af bólusetningu. „Það munu allir fá boð í gegnum gemsann og þeir sem eru ekki með gemsa, það verður hringt í þá.“ Þá veiti heilbrigðisstofnanirnar upplýsingar á sínum heimasíðum.