Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bjargaði hreindýri úr sjálfheldu í Berufirði

24.02.2021 - 14:58
Mynd: Bjarni Halldór Kristjánsson / RÚV
Vegfarandi á leið heim úr fríi kom hreindýri sem hafði fest sig í girðingu til bjargar í Berufirði við Djúpavog í morgun. Svo virtist sem dýrið væri dautt þegar komið var að því en þegar það var losað úr prísundinni spratt það á fætur og skokkaði í burtu.

Kom ekki annað til greina en að bjarga dýrinu

Bjarni Halldór Kristjánsson átti leið um Berufjörð á leið heim úr vetrarfríi í dag þegar hann rak augun í dýrið. Hann segir aldrei neitt annað hafa komið til greina en að koma því til aðstoðar. 

„Ég hélt nú að hann væri dauður þegar ég kom að honum en þegar ég sá að svo var ekki náði ég mér í töng í bílnum og var enga stund að losa hann. Hann var mjög rólegur á meðan á þessu stóð og skokkaði svo bar í burtu þegar hann var orðinn laus,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu. 

„Skírði hann Rúdólf en þetta gæti verið konan hans“

Bjarni birti færslu á Facebook þar sem hann sagði frá málinu og var fljótur að gefa dýrinu nafn. „Ég skírði hann Rúdólf en þetta gæti verið konan hans, hafði ekki tíma til að kanna það,“ segir Bjarni.