Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vill að ráðherra svari fyrir meint ósætti

23.02.2021 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í allsherjarnefnd Alþingis, hefur farið fram á að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra komi fyrir nefndina og svari fyrir nefndaskipan hennar um málefni Ríkisútvarpsins.

Í síðustu viku skipaði menntamálaráðherra nefnd þriggja stjórnarþingmanna sem eru þau Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Magnússon, einn frá hverjum stjórnarflokki. Þau eiga að rýna lög um Ríkisútvarpið ohf. og gera tillögur að breytingum sem séu líklegar til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk RÚV eins og það er orðað.

Gagnrýnt hefur verið að enginn þingmaður úr stjórnarandstöðu komi að þessari vinnu og nú hefur Þorbjörg Sigríður farið fram á að Lilja mæti fyrir nefndina til að gera grein fyrir hennar sýn á þetta ósætti og hvort frumvarp sé væntanlegt. Allsherjarnefnd hafi nú til umfjöllunar frumvarp ráðherrans um stuðning við einkarekna fjölmiðla og því verði að liggja ljóst fyrir hvað ráðherranum gangi til, að mati Þorbjargar Sigríðar. Henni finnist eðlilegt að ræða fjölmiðla heildstætt, ríkisfjölmiðilinn og einkarekna.

Allsherjarnefnd samþykkti beiðni Þorbjargar og hefðin er sú að það gerist fljótlega enda á nefnd ráðherra að ljúka störfum í lok mars.

Þingfundur hefst á Alþingi klukkan eitt á óundirbúnum fyrirspurnum þingmanna til ráðherra og eflaust margt sem brennur á þingmönnum og ráðherrabekkurinn þéttskipaður.
 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV