Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Varar við hraðri útbreiðslu „bresku veirunnar“

23.02.2021 - 17:58
epa08795230 State epidemiologist Anders Tegnell of the Public Health Agency of Sweden speaks during a news conference updating on the coronavirus pandemic (Covid-19) situation, in Stockholm, Sweden, 03 November 2020.  EPA-EFE/Jonas Ekstromer *** SWEDEN OUT *** SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, óttast að afbrigði kórónuveirunnar, sem kennt er við Bretland, breiðist hratt út í Evrópuríkjum á næstu vikum. Formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Svíþjóð vill að breytt verði um stefnu í baráttunni gegn veirunni áður en þriðja bylgja hennar ríður yfir. 

Anders Tegnell greindi frá áhyggjum sínum á fundi með fréttamönnum í Stokkhólmi í dag. Hann sagði að miðað við tíðindi af útbreiðslu hinnar bráðsmitandi svonefndu bresku veiru, þrátt fyrir strangar ferðatakmarkanir milli landa, gæti farið svo að hún yrði orðin alls ráðandi í Evrópuríkjum innan tveggja vikna eða svo. 

Tegnell kvaðst á fundinum ætla að kynna nýjar sóttvarnaráðstafanir á morgun. Hann vildi ekki ræða nánar um hvað þær snerust að svo komnu máli.
Ulf Kristersson, formaður Moderaterna, stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Svíþjóð, efast í Dagens Nyheter í dag um að Svíar beiti réttum aðferðum í baráttunni við COVID-19. Þar segist hann ætla að ræða við leiðtoga annarra flokka á morgun um hvort ekki sé rétt að breyta um stefnu þegar þriðja bylgja kórónuveirunnar ríður yfir. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV