Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Spenna milli Rússa og Norðmanna vegna heræfinga NATO

23.02.2021 - 12:23
Mynd: Varnarmálaráðuneyti Noregs / Varnarmálaráðuneyti Noregs
Spenna ríkir nú á milli Rússa og Norðmanna vegna heræfinga Atlantshafsbandalagins í og við Noreg. Rússnesk stjórnvöld hafa brugðist illa við fréttum um að fjórar langdrægar bandarískar sprengjuflugvélar verði staðsettar tímabundið í Noregi. Yfirmaður norska hersins segir æfingarnar ekkert óvenjulegar og að Rússum hafi verið tilkynnt um þær með góðum fyrirvara.

Sprengjuflugvélar valda spennu

Sprengjuflugvélarnar eru af gerðinni B-1 og verða í Noregi vegna heræfinga Atlantshafsbandalagsins. Þær verða staðsettar á herflugvelli í Ørland í Þrándheimsfirði og er búist við þar verði vélarnar í um mánuð.
Að sögn norska ríkisútvarpsins er þetta í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar að langdrægar sprengjuflugvélar taka þátt í heræfingum í Noregi. 

Rússar segja sprengjuvélarnar ógn við öryggi sitt

Rússar segja veru stórra, fullkominna, langdrægra sprengjuflugvéla vera ógn við jafnvægi í þessum heimshluta. Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands, segir að spenna aukist á landamærunum við Noreg sem geti leitt til stríðs, vera bandarísku flugvélanna sé alvarleg ógn við öryggi Rússa.  

Rússar tilkynna um eigin heræfingar

Rússar tilkynntu um flugskeytaæfingar við Bjarnarey á milli Noregs og Svalbarða og er litið á það sem svar við æfingum NATO. Þá hafa langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar verið að æfa árásir á herstöðvar í Noregi og á Grænlandi. Dimitri Litovkin, ritstjóri rússnesks tímarits um varnarmál, segir að bæði Rússar og Bandaríkjamenn æfi árásir.

Norðmenn segja æfingarnar enga ógn við Rússa

Tone Skogland, talsmaður norsku ríkisstjórnarinnar, segir að það sé mikilvægt og nauðsynlegt fyrir öryggi Noregs að bandamenn æfi með norska hernum.
Yfirmaður norska hersins, Eirik Kristoffersen, segir að heræfingarnar séu ekki ógn við Rússa, norski herinn hafi æft með bandamönnum sínum árum saman og Rússum sé tilkynnt um æfingarnar.