Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sendiherra Ítalíu, lífvörður hans og bílstjóri myrtir

epaselect epa09030027 United Nations and Congo Armed Forces soldiers secure a road near the scene of an attack on the edge of the Virunga National Park where Italy's ambassador to the Democratic Republic of Congo and two others were killed, in Nyiragongo, North Kivu province,  Democratic Republic of Congo, 22 February 2021. According to the Italian Foreign Ministry, the Italian Ambassador to the DR Congo, Luca Attanasio, and a security member were killed in an apparent attack on a UN convoy near Goma, Democratic Republic of the Congo. A statement by the World Food Programme (WFP) said that a WFP driver was also among the dead.  EPA-EFE/STR
Friðargæsluliðar SÞ og kongóskir stjórnarhermenn á vettvangi árásarinnar Mynd: EPA-EFE - EPA
Sendiherra Ítalíu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó var myrtur í gær, ásamt lífverði sínum og bílstjóra. Lögregluyfirvöld telja morðin vera afleiðingu misheppnaðrar mannránstilraunar.

Sendiherrann, Luca Attanasio, var á ferð í Norður-Kivu héraði í austurhluta landsins þegar vígamenn réðust úr launsátri á bílalest Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, sem bifreið hans var hluti af. Héraðsstjóri Norður-Kivu, Carly Nzanzy Kasivita, greinir frá því að árásarmennirnir hafi stokkið í veg fyrir bílalestina, hleypt af viðvörunarskotum og myrt bílstjóra sendiherrans. Þeir voru á leið inn í skóginn með gísla sína þegar þjóðgarðsverðir komu að og hófu skothríð, sem vígamennirnir svöruðu í sömu mynt. Fleiri munu hafa særst í árásinni.

Í tilkynningu frá kongóska innanríkisráðuneytinu segir að sendiherrann hafi verið skotinn í kviðinn og látist af sárum sínum á sjúkrahúsi Sameinuðu þjóðanna í héraðshöfuðborginni Goma nokkrum klukkustundum síðar. Ítalska utanríkisráðuneytið greindi frá því að lífvörður sendiherrans, Ítalinn Vittorio Iacovacci, hefði einnig látið lífið í árásinni, rétt eins og bílstjórinn, heimamaðurinn Mustapha Milambo, sem starfaði fyrir Matvælaaðstoðina.

Mikið um vígasveitir á þessum slóðum

Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en stjórnvöld skella skuldinni á hreyfingu sem kallar sig Lýðræðisher til frelsunar Rúanda. Sú hreyfing er ein af mörgum sem heldur úti vopnuðum vígasveitum í og umhverfis Virunga-þjóðgarðinn sem liggur með landamærum Kongós, Rúanda og Úganda.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að bílalestin hafi verið á leiðinni til bæjarins Rutshuru til að kynna sér framkvæmd og árangur af matvælaaðstoð við skólann í bænum.

Attanasio hafði verið sendiherra Ítalíu í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó frá 2017. Hann var 43 ára gamall og lætur eftir sig konu og þrjár dætur. Bílstjórinn Milambo lætur eftir sig konu og fjögur börn, en um lífvörðinn Iacivacci kemur ekki annað fram en að hann hafi verið þrítugur að aldri þegar hann var myrtur. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV