Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Samgöngubætur og bætt vetrarþjónusta er jafnréttismál“

Mynd með færslu
Hellisheiði. Mynd úr safni.  Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
„Samgöngubætur og bætt vetrarþjónusta er jafnréttismál,“ segir Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Hann segir bættar samgöngur einnig mikilvægar fyrir ungt fólk svo það geti sætt sig við að setjast niður á stöðum úti á landi.

Hjalti flutti erindi á morgunfundi Vegagerðarinnar um vegaþjónustu að vetrarlagi ásamt Jóni Þorvaldi Heiðarssyni, lektor við Háskólann á Akureyri. Erindið byggði meðal annars á þremur könnunum um viðhorf til samgangna milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu fyrir tíma Vaðlaðheiðargangna.  

Jón Þorvaldur sagði hindranir í samgöngum meira hamlandi fyrir konur en karla og vísaði í niðurstöður lokaverkefnis Sigrúnar Þorsteinsdóttur við HA, „Norðfjarðargöng: rannsókn á væntingum íbúa í Neskaupstað til samfélagslegra áhrifa Norðfjarðarganga“.

Þar var meðal annars spurt hvort fólk finndi fyrir kvíða eða óþægindum að ferðast að vetrarlagi um Hólmaháls, mili Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Um 14% fleiri konur en karlar kváðu svo vera.

Vegrið og sambærilegar lausnir geta slegið á kvíða

Ferðir um Fagradal að vetrarlagi sagði Jón valda 44% kvenna mjög miklum eða frekar miklum óþægindum, kvíðnu karlarnir væru mun færri. Jón Þorvaldur sagði ekki hafa komið fram hvað gæti valdið en nefndi ótta við vont veður sem vegagerðin réði auðvitað ekkert við.

Jón taldi mögulegt að helst væri óttast að aka út af veginum í hálku og að vegrið og slíkar lausnir gætu dregið úr þeim óþægindum. „Vegagerðin getur haft áhrif á kvíða fólks þegar það fer leiðir sem þar reynir á vetrarþjónustu,“ sagði Jón. 

Hann sagði það veita konum meira frelsi þegar vetrarþjónusta Vegagerðarinnar er bætt og það lagað sem valdið getur kvíða eða óþægindum.

Hjalti Jóhannesson sagði eitt þess sem kortlagning í könnunum þremur sýndi væri að karlar aki um lengri veg eftir atvinnu en konur. 

Gott vegakerfi eykur og bætir öll samskipti

„Vegir þurfa að vera til staðar til að komast milli staða, þeir þurfa að vera vandaðir og góðir og vel við haldið,“ sagði Jón Þorvaldur.

„Þá þarf að moka og hálkuverja að vetri til að þeir nýtist sem best. Það er til lítils að eyða milljörðum í vegi sé ekki tryggt að hægt sé að nota þá allt árið um kring.“

Jón sagði gott vegakerfi auka og bæta samskipti fólks, glæða viðskipti með þjónustu og vörur og efla menningarleg samskipti. „Það bætir líklega lífskjör og mannlíf.“  

Hann sagði vetrarþjónustu á vegum auka þessi áhrif en að þau minnkuðu væri hún slök. „Gott vegakerfi eykur líkur á að fólk fái starf sem því hentar ef það getur leitað út fyrir staðinn þar sem það býr,“ sagði Jón auk þess sem auðveldara væri fyrir fyrirtæki að fá hæft starfsfólk.  

Með bættum vegum og þjónustu þeirra yrði til stærri vinnumarkaður og þjónustumarkaður, segir Jón og að það geti einnig aukið sérhæfingu fyrirtækja. Þau geti þá þróast yfir í að framleiða sérhæfðari og betri vörur.

Hann segir þó fjarlægðarverndina minnka með góðu vegakerfi,  sem geti orðið til þess að fyrirtæki á áður einangruðum stöðum geti lagt upp laupana ef vegkerfið batnar.

Með góðu vegakerfi og vetrarþjónustu megi hagræða í rekstri sveitarfélaga, til að mynda með því að sameina fámenna grunnskóla. 

Gott vegakerfi eykur möguleika í ferðaþjónustu

Jón Þorvaldur segir að möguleikar í ferðaþjónustunni  aukist  með góðu vegakerfi. „Hafa ber í huga að ferðaþjónusta er útflutningsgrein sem eflist með góðu vegakerfi,“.

Hann segir því gott vegakerfi ekki aðeins snúast um um þarfir heimamanna heldur að landsframleiðsla aukist með betri nýtingu. „Góð vetrarþjónusta eykur líkurnar á verðmætasköpun í landinu, í ferðamennsku og öðrum greinum.“

Jafnframt megi Jón Þorvaldur kveður góða vetrarþjónustu næstum jafn mikilvæga sjálfri tilvist vegarins.