Sakfelldur fyrir árás á hótelherbergi í Marseille

23.02.2021 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir árás á kærustu sína á hótelherbergi í frönsku borginni Marseille. Hann afplánar nú sex ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og hefur áður hlotið dóm fyrir árás á sömu konu.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að parið hafi farið til Marseille í júní 2018. Eftir að hafa farið á tónlistarhátíð eitt kvöldið hafi þau farið að rífast og orðið viðskila við hvort annað.

Þegar konan sneri aftur á hótelherbergið hafi maðurinn beðið eftir henni og ráðist á hana.  Hún datt út eftir eitt höggið og þegar hún rankaði við sér sagði maðurinn að hann vildi ekki fara í fangelsi og spurði hvort þau ættu ekki að fara til Grikklands.  Hún brást við með að öskra og reyndi að fela sig á bak við rúm en maðurinn strunsaði út.  

Þegar konan vaknaði næsta dag var henni gert að yfirgefa hótelherbergið. Sími hennar var ónýtur, föt hennar lágu eins og hráviði um allt og hún var peningalaus.  Í dóminum kemur fram að hún hafi neyðst til að gista eina nótt á götunni. Lögreglan í Marseille gaf henni að borða og fann fyrir hana hótelherbergi þegar hún hafði tekið af henni skýrslu.

Konan leitaði síðan til sendiráðs Íslands sem kom henni í samband við foreldra hennar og þau lánuðu dóttur sinni fyrir farseðlinum heim.

Í dómi héraðsdóms er vitnað til skýrslu starfsmanns á hótelinu sem kærði manninn einnig fyrir ofbeldi. Starfsmaðurinn sagðist hafa komið til athuga með parið eftir að aðrir gestir kvörtuðu undan hávaða.

Maðurinn lofaði að þau myndu róa sig en 5 mínútum seinna hafi hávaðinn byrjað aftur, konan komið út úr herberginu og maðurinn kýlt hana í höfuðið.

Starfsmaðurinn reyndi að stöðva árásina en maðurinn brást við með því að sparka í brjóstið á honum og leggja síðan á flótta.

Maðurinn neitaði sök þegar hann kom fyrir dóminn og sagðist ekki hafa orðið neitt reiður við konuna. Þau hefðu frekar verið neyslufélagar en í sambandi.  Hann hefði farið til Parísar eftir að konan bað hann um að fara og þaðan hefði hann flogið til Íslands.

Héraðsdómur taldi framburð hans ótrúverðugan og að hafið væri yfir allan vafa að hann hefði veist að konunni og beitt hana ofbeldi.  Var hann því dæmdur í 4 mánaða fangelsi og gert að greiða henni 1,2 milljónir í miskabætur.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV