Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óvíst hversu margir verða bólusettir í næstu viku

23.02.2021 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Enn er óvíst hvort hægt verði að ljúka fyrri bólusetningu allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í aldurshópnum 80 ára og eldri í næstu viku. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að um það bil fimm þúsund manns í aldurshópnum eigi eftir að fá bólusetningu. Fólk á þessum aldri sem býr á hjúkrunarheimilum hefur nú þegar verið bólusett.

Seinni bólusetning íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem eru 90 ára eldri hófst í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut í morgun. Ætlunin er að klára að bólusetja þann aldurshóp í dag, um 750 manns. 

Fjöldi skammta í næstu viku enn óljós

Ragnheiður segir enn óljóst hversu mikið bóluefni heilsugæslan fái í næstu viku, en að búist sé við því að að minnsta kosti verði hægt að bólusetja alla yfir 83 ára. Þegar hún er spurð hvort hinir fái þá bólusetningu í þarnæstu viku segir hún að heilsugæslan bíði upplýsinga frá sóttvarnayfirvöldum um afhendingu bóluefna um landið.

Heilsugæslan hefur nú bæði kost á því að bólusetja í gamla Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut og í Laugardalshöll þar sem búið er að koma upp fjöldabólusetningastöð. „Við erum að nota bæði húsnæðin en þegar við erum að fá til okkur marga, mörg þúsund manns, þá notum við Laugardalshöllina en annars notum við Orkuhúsið við Suðurlandsbraut,“ segir Ragnheiður. 

Allir eldri en 80 ára á Vestfjörðum bólusettir í vikunni

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vakti athygli á bólusetningu 80 ára og eldri í færslu á Facebook í dag. Á fimmtudaginn verða íbúar á norðanverðum Vestfjörðum fæddir 1941 og fyrr bólusettir, í Safnaðarheimilinu í Bolungarvík kl. 11, á Tjörn á Þingeyri kl. 13 og milli kl 11 og 15 á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði. 

Íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum fæddir 1941 og fyrr verður einnig boðin bólusetning í vikunni. Hvergi á landinu er jafnhátt hlutfall bólusett eins og á Vestfjörðum þar sem rétt tæp 6,5 prósent hafa nú þegar fengið bólusetningu.