Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óendanlega kát með að fá aftur félagslíf í skólana

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Alls mega 150 koma saman í einu í skólum frá og með morgundeginum. Þessu fagna framhaldsskólanemar mjög. Anna Sóley Stefánsdóttir, forseti Nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ, er óendanlega kát með breytinguna. Í vikunni verður þegar byrjað að leggja á ráðin um viðburði. Hugsanlega verður unnt að fara í skíðaferð á næstunni.

 

Alls mega 150 manns koma saman í framhaldsskólum frá og með morgundeginum. Þá breytist tveggja metra reglan í eins metra reglu. Sé ekki unnt að halda þeirri fjarlægð eiga nemendur og starfsmenn að vera með grímu.

Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi framhaldsskóla, svo sem fyrirlestrar, ræðukeppnir o.fl., eru heimilir í skólabyggingum með áðurnefndum fjölda- og nálægðartakmörkunum. Fari hámarksfjöldi yfir 150 gilda reglur um samkomutakmarkanir samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum.

Þessari endurlífgun á félagslífi framhaldsskólanna er ákaft fagnað. Anna Sóley segir að allir séu komnir með nóg af rafrænum viðburðum. 

„Þessar breytingar gera ótrúlega mikið fyrir félagslíf skólans. Þetta þýðir að við getum haldið litla viðburði í skólanum fyrir nemendur í skólanum. Ég sé fram á bjarta tíma. Það er ótrúlega gaman að leyfa krökkunum að hittast, þó svo að við þurfum að hafa grímu, hanska eða hvað sem er. Það skiptir ekki máli. Bara að við fáum að hittast og gera eitthvað, vökunótt, skemmtikvöld, möguleika skíðaferð, bara eitthvað skemmtilegt fyrir krakkana,“ segir Anna Sóley.

Eftir að staðnám hófst í skólum eftir jól var skrítið að mega hittast í tímum en ekki utan þeirra. Anna Sóley segir þetta hafa haft áhrif á líðan framhaldsskólanema. 

„Það að félagslífið fari út úr menntaskóla, þá er ekkert eftir nema námið og þá verður þetta bara erfitt. Það er bara staðreynd,“ segir Anna Sóley.

Hún segir þetta hafa bitnað mest á nýnemum. 

Þannig að þú ert kampakát með þessar breytingar?

„Mjög. Alveg óendanlega kát. Ég finn engan endi. Það er bara þannig,“ segir Anna Sóley.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV