
Laun hækkuðu um 3,7 prósent í janúar
Laun í janúar á þessu ári voru að meðaltali 10,3 prósentum hærri en í janúar á síðasta ári. Í lífskjarasamningunum frá árinu 2019 var kveðið á um krónutölukauphækkanir í apríl 2020 og í janúar 2021. Sambærilegir kaupsamningar voru gerðir á síðasta ári hjá opinberu starfsfólki sem fólu í sér tvær kjarasamningshækkanir á síðasta ári og svo hækkun 1. janúar 2021.
Stytting vinnuvikunnar ígildi launahækkunar
Hagstofan fjallar um það í nýrri greinargerð að ákvæði í kjarasamningum um styttingu vinnuvikunnar geti haft áhrif á launavísitöluna. Í kjarasamningum á opinberum markaði er kveðið á um styttingu vinnuvikunnar um 13 mínútur á dag frá 1. janúar 2021 hjá launafólki á mánaðarlaunum í dagvinnu.
Styttingin telst sem ígildi launabreytinga og hefur áhrif til hækkunar á launavísitölu. Áhrif vinnutímastyttingar í kjarasamningum frá árunum 2019 og 2020 sem eru talin ígildi launabreytinga komu fyrst fram í launavísitölu Hagstofunnar í nóvember 2019. Áhrif styttingar frá þeim tíma til nóvember 2020 voru metin 0,8 prósentustig. Fyrsta mat Hagstofunnar á áhrifum vinnutímastyttingar í janúar 2021 á launavísitölu er um 0,4 prósentustig.
Áhrifa vinnutímastyttingar á almenna markaðnum gætti fyrst í launavísitölu í nóvember 2019 en mest voru áhrifin í janúar 2020 vegna styttingar vinnutíma verslunarmanna og starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þá hækkaði launavísitalan á milli mánaða um 0,7 prósent en metin hækkun var 0,1 prósent án áhrifa af styttingu vinnutíma.