Iversen: Hver verður heimsmeistari í göngu í sykursnjó?

epa08961806 Emil Iversen of Norway reacts in the finish area during the Men's Relay 4x7.5 km race at the FIS Cross Country World Cup in Lahti, Finland, 24 January 2021.  EPA-EFE/MAURI RATILAINEN
 Mynd: EPA

Iversen: Hver verður heimsmeistari í göngu í sykursnjó?

23.02.2021 - 16:43
Það ríkir vægast sagt mikil óánægja með aðstæður í Oberstdorf í Þýskalandi en HM í skíðagöngu hefst á svæðinu á fimmtudag. Mikill hiti hefur gert brautarstarfsmönnum erfitt um vik og landsliðsmaður Noregs segir aðstæður með þeim verstu sem hann hefur séð.

Spor og brautir sem skíðagöngumenn fara eftir í Oberstdorf eru mjög lausar í sér vegna hitans og snjórinn tollir illa. 

Hugsa frekar um sólbrúnku en gullverðlaun

Í samtali við NRK segir norski skíðagöngukappinn Emil Iversen, sem vann til tveggja gullverðlauna á HM í Seefeld í Austurríki 2019, að aðstæðurnar séu með þeim verstu sem hann hafi upplifað. 

„Fyrir mitt leyti er ég löngu hættur að pæla í gullverðlaunum. Ég lít á þetta sem gott tækifæri til að næla mér í sólbrúnku. Því lengra sem ég kemst í keppninni því meiri verður brúnkan,“ sagði Iversen og bætti við. 

„Þetta eru einfaldlega með verstu aðstæðum sem ég hef séð á mínum ferli. Það verður áhugavert að keppa um hver er fljótasti skíðagöngukappinn í einum metra af sykursnjó,“ segir Iversen og vísar þar í ástand snjósins í Þýskalandi.

15 til 17 gráðu hita er spáð næstu daga í Oberstdorf og því ekki útlit fyrir að aðstæður á svæðinu batni fyrr en mögulega um helgina. Ein leið til að hjálpa brautum og sporum að halda sér er að salta dag eftir dag en hitinn gæti einfaldlega verið of mikill til að sú aðferð skili árangri. Erik Valnes, félagi Iversen í norska landsliðinu, deilir áhyggjunum. 

„Ég held að það sú nú betra að aflýsa mótinu bara,“ sagði Valnes við NRK um málið. 

Þetta er nú eini sinni utandyra íþrótt

Þó eru ekki allir í norska liðinu á sama máli. Reynsluboltinn Martin Johnsrud Sundby finnst undarlegt hvað samherjar hans í landsliðinu kvarta mikið. 

„Þetta eru vissulega sérstakar aðstæður en það er alveg hægt að skíða í þessu,“ segir Sundby sem er 36 ára og keppir nú á sínu sjöunda heimsmeistaramóti. Á þeim hefur hann unnið til níu verðlauna, þarf af fernra gullverðlauna, en hann vann tvenn slík í Seefeld 2019.

„Hérna eru strákar sem hafa tryggt sér keppnisrétt á HM og þeir vilja aflýsa keppninni? Það skil ég ekki og er algjörlega ósammála sjónarmiðum þeirra. En vissulega eru þetta alveg drulluerfiðar aðstæður og allt annað en við erum vanir,“ segir Sundby.

HM í skíðagöngu verður sýnt beint á RÚV og verður afar fróðlegt að fylgjast með aðstæðum. Fyrsta beina útsendingin verður á fimmtudag þegar keppt verður í sprettgöngu karla og kvenna en útsending hefst á RÚV klukkan 14:10.

Hér má nálgast allar beinar útsendingar á RÚV næstu vikur.