Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hálfur mánuður þar til tafirnar hafa verið unnar upp

23.02.2021 - 21:37
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hálfur mánuður er þar til tekist hefur að vinna upp alla seinkun sem varð þegar heilsugæslan tók við leghálsskimun af Krabbameinsfélaginu og samið var við rannsóknarstofu í Danmörku um greiningu sýnanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Óskari Reykdalssyni, forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í kvöld að þegar heilsugæslan tók við leghálsskimun af Krabbameinsfélaginu um áramótin hafi ýmislegt verið ófrágengið. Tölvukerfið ekki klárt og ekki búið að semja við dönsku rannsóknastofuna sem nú greinir sýni frá Íslandi.

Þar kom einnig fram að þau 2.400 sýni sem tekin höfðu verið á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í nóvember og desember hafi lent á milli skips og bryggju. Búið væri að greina helming þessara sýna, en um 1200 konur bíði enn svara.

Fram kemur í tilkynningu Óskars í kvöld að búið sé að greina nánast öll sýni sem tekin voru í desember.  „Núna eru því aðeins tvær vikur þar til tekist hefur að ná að vinna upp alla seinkun sem varð því miður þegar sýnatakan færðist yfir til heilsugæslunnar og samið var við rannsóknarstofu í Danmörku um greiningu sýnanna.“

Búið sé að póstleggja 2.300 svarbréf þar sem konunum er gerð grein fyrir niðurstöðu greiningarinnar. Örfá til viðbótar fari í póst næstu daga. „Okkur þykir mjög leitt að þessi seinkun hafi valdið óþarfa áhyggjum og erum þess fullviss að þjónustan muni á næstunni verða bæði betri og hraðvirkari en fyrr.“