Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Grunur um 18 alvarleg tilfelli eftir bólusetningar

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Tvö prósent þeirra sem hafa verið bólusett hafa tilkynnt um grun um aukaverkanir af Covid-bóluefnum. Átján alvarleg tilfelli hafa verið tilkynnt og af þeim eru 10 dauðsföll. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar segir að þó sé ekki talið líklegt að þau tengist bólusetningunni sjálfri.  

Algengustu aukaverkanirnar

Þrjú hundruð fjörutíu og fjórar tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun vegna gruns um aukaverkun eftir bólusetningu við COVID-19. Fimm prósent af þeim eru alvarlegar.

Algengar aukaverkanir af öllum þremur bóluefnunum sem hafa verið notuð hér á landi, Astra Zeneca, Pfizer og Moderna, eru mjög svipaðar, verkur í handlegg á stungustað og flensueinkenni sem hvort tveggja eru talin fylgja öllum bólusetningum.

Tímabundinn andlitsdofi

Sjaldgæfari aukaverkun af tveimur bóluefnanna, Pfizer og Moderna, sem einn af hverjum 1000 getur búist við er tímabundin lömun öðrum megin í andliti. Rúna segir að engin tilkynning um slíkt hafi komið fram hér á landi 
„Við höfum fengið tilkynnt 4 tilvik um dofa í andliti eftir bólusetingu sem sagt þrjú hjá Comirnaty (Pfizer) og eitt hjá Moderna. Og það er kannski bara í hlutfalli við það að það voru fleiri bólusettir, miklu fleiri með Pfizer bóluefninu hér. Við höfum ekki fengið þessa skammvinnu lömun tilkynnta.“

Andlitslömunin gangi til baka á fáum vikum en andlistsdofinn hverfi miklu fyrr. Átján alvarlegar aukaverkanir hafa verið tilkynntar og þar af 10 dauðsföll, „en ekkert af þessum andlátum er líklegt að tengist bólusetningunni sjálfri.“  
 
Hin alvarlegu tilfellin eru öndunarstopp og versnun á astma. Allar alvarlegustu aukaverkanirnar voru hjá fólki í elsta aldurshópnum, frá áttræðu og upp í nírætt.

Í takti við það sem búist var við

Fjöldi tilkynninga og tegund aukaverkana hér sé í takti við það sem búist var við miðað við klínískar rannsóknir á efnunum. „Ef við horfum á það að við séum komin með 2 prósent tilkynntar aukaverkanir af þeim sem hafa verið bólusettir það er ekkert langt frá því sem við vorum að horfa til.“

Rúna segir að mikivægt sé að tilkynna aukaverkun því verið sé að safna upplýsingum um bóluefnin um allan heim.  „Og það er verið að bólusetja miklu stærri hópa þó þetta hafi verið stórir hópar í klínísku rannsóknunum  þá er mjög mikilvægt að halda utanum þær aukaverkanir sem koma því það kemur ný vitneskja og reynsla í gegnum þetta tilkynningakerfi.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV