Gerard Depardieu ákærður fyrir nauðgun

23.02.2021 - 19:52
epa09032154 (FILE) - French actor and cast member Gerard Depardieu attends a press conference on the movie 'Le divan de Staline' at the Lisbon and Estoril Film Festival, in Lisbon, Portugal, 13 November 2016  (reissued 23 February 2021). French media citing judicial sources report on 23 February 2021 that Depardieu has been charged with rape. The French actor had already been accused of rape and sexual assault in 2018.  EPA-EFE/ANTONIO PEDRO SANTOS
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Franski leikarinn Gerard Depardieu hefur verið ákærður fyrir nauðgun. Hann er sagður hafa brotið gegn leikkonu á tvítugsaldri fyrir þremur árum. Málið var fellt niður fyrir tveimur árum vegna skorts á sönnunargögnum en síðan tekið upp að nýju. Ákæra í málinu var gefin út í desember.

Leikkonan segir leikarann hafa nauðgað sér á heimili hans í París í ágúst 2018 og samkvæmt heimildum AFP er Depardieu vinur fjölskyldu leikkonunnar.  Þau eru sögð hafa verið að æfa atriði fyrir leikrit þegar brotið átti sér stað. Lögmaður konunnar segir við AFP að hún voni að fjölmiðlar virði einkalíf leikkonunnar.

Depardieu er einn allra frægasti leikari Frakklands en er ekki síður alræmdur fyrir hegðun sína utan hvíta tjaldsins. 

1991 var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Cyrano de Bergerac en viðtal sem hann veitti tímaritinu Time gerði út um þær vonir. Þar sagðist hann hafa orðið vitni að mörgum nauðgunum í æsku.

„Ég segi stundum heimskulega hluti,“ sagði Depardieu þegar hann reyndi að lágmarka skaðann.  Til að bæta gráu ofan á svart  var í viðtalinu þýðingarvilla sem virtist bendla leikarann við nauðgun þegar hann var aðeins níu ára.

Franskir stjórnmálamenn reyndu að verja sinn mann allt kom fyrir ekki. Það var síðan Jeremy Irons sem hlaut verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni 
Reversal of Fortune.

2005 rataði Depardieu aftur í fréttirnar þegar hann skallaði ljósmyndara sem reyndi að taka mynd af honum og ungri konu í verslunarferð í Flórens. 2011 kastaði hann af sér vatni í flösku eftir að flugfreyja neitaði honum um salernisferð í miðju flugtaki. „Ég er ekki skrímsli. Ég er bara maður sem þarf að pissa,“ sagði leikarinn í spjallþætti um atvikið.

Tveimur árum seinna var hann gagnrýndur í heimalandi sínu fyrir að sækja um rússneskan ríkisborgararétt.  Vildi hann með því mótmæla skatti á hina ríku.  Honum var tekið með kostum og kynjum í Rússlandi og sat meðal annars kvöldverðarboð sem Vladímir Pútín, forseti landsins, hélt honum til heiðurs.