Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Framhaldsskólastarf komið í nánast eðlilegt horf

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og formaður Skólameistarafélags Íslands, segir að með breytingum á sóttvörnum verði framhaldsskólastarf nánast komið í eðlilegt horf. Miklar breytingar verða á félagslífi nemenda. Faraldurinn hefur þó þau áhrif að einhverjir framhaldsskólanemar munu seinka námi eða hætta jafnvel alveg.

„Fyrir framhaldsskólana var opnað mjög verulega um áramótin þannig að flestir þeirra fóru í nokkuð venjulegt starf hvað varðar kennslu. Þetta eiginlega opnar restina. Ég sé ekki annað en að framhaldsskólar geti haldið úti fullri kennslu frá og með því að þessi reglugerð tekur gildi. Þannig að þetta er mjög jákvætt,“ segir Kristinn.

Þá breytir þetta töluverðu um félagslíf nemenda.

„Þarna geta þau haldið samkomur fyrir allt að 150 manns með ákveðnum takmörkunum. Þannig að það opnar ýmsa möguleika. Fram að þessu hefur félagslíf í skólum legið niðri svo að segja. Menn hafa þó verið feyki duglegir að vera með einhvers konar rafræna starfsemi. En þetta opnar tækifæri á talsvert meiru,“ segir Kristinn.

Eru allir kennarar til í þetta?

„Ég veit ekki betur en að allir skólar hafi nálgast þetta þannig að þeir kennarar sem ekki treysta sér til að kenna undir þessum kringumstæðum, þeir hafa þá sinnt rafrænni kennslu. Þannig hefur það að einhverju leyti verið hér og þannig hefur það verið í fleiri skólum. Ég held að menn muni áfram nálgast það á þann hátt. Ég held að í langflestum skólum sé meginþorri við kennslu. En þeim eru sýnd tillitsemi sem óttast um heilsuna,“ segir Kristinn.

Finnur þú fyrir því að takmarkanir hafi áhrif á líðan nemenda?

„Það eru alltaf einhver fórnarlömb. Það eru einhverjir sem munu seinka námi eða falla frá námi vegna COVID-19. En kennsla hefur gengið vel og við höfum lært mikið og náð að halda kennslu ótrúlega vel í gangi frá því faraldurinn skall á,“ segir Kristinn.