Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framboð Kielsens gæti reynt á „óskrifaða reglu“ Siumut

23.02.2021 - 06:36
Mynd af vefsíðu KNR, grænlenska ríkisútvarpsin, sem sýnir Erik Jensen og Kim Kielsen.
 Mynd: KNR-grænlenska ríkisútvarpið - KNR
Með framboði sínu til Grænlandsþings í vor, þrátt fyrir að hafa verið bolað úr formannsstóli Siumut, sýnir Kim Kielsen, fráfarandi formaður grænlensku landsstjórnarinnar, að hann hefur engan hug á að létta eftirmanni sínum í formannsstólnum lífið. Óskrifuð regla um vægi persónuatkvæða gæti orðið uppspretta áframhaldandi innanflokksátaka.

Í frétt grænlenska blaðsins Sermitsiaq segir að það sé óskrifuð regla í Siumut, að sá frambjóðandi sem fær flest persónuleg atkvæði í kosningum fái það hlutverk að leiða stjórnarmyndunarviðræður og landsstjórnina sjálfa, ef svo ber undir, en þingflokkinn að öðrum kosti.

Óskrifuð en ekki endilega algild regla

Þessi óskrifaða regla er þó ekki algild, ef marka má arftaka Kielsens í formannstóli flokksins, þingmanninn Erik Jensen. Jensen staðfestir í samtali við Sermitsiaq að þessi óskrifaða regla fyrirfinnist í flokknum, en hann vilji láta kjósendur segja sitt álit með atkvæðum sínum áður en nokkuð verður ákveðið í þessum efnum. Segist hann sannfærður um að hvort tveggja Siumut og hann sjálfur fái góða kosningu þegar kosið verður til þings hinn 6. apríl.

Aðspurður hvað hann hyggist gera, fái Kielsen fleiri persónuatkvæði en hann, segist Erik að sjálfsögðu virða vilja kjósenda. „En það, hvað við gerum varðandi óskrifaðar reglur, þurfum við að ræða innan flokksins að kosningum loknum,“ segir formaðurinn. Hann leggur ennfremur áherslu á, að hann hyggist halda áfram formennsku í Siumut fram að næsta landsfundi eftir þrjú ár, óháð kosningaúrslitunum.

Kielsen nýtur persónuhylli en fylgi Siumut hefur minnkað

Grænland er eitt kjördæmi og geta kjósendur valið á milli þess að kjósa flokk eða einstaka frambjóðendur. Persónuleg atkvæði einstakra frambjóðenda gilda jafnframt sem atkvæði fyrir flokk hans. Þingsæti skiptast á milli flokka á grundvelli heildaratkvæðafjölda, en þingmenn hvers flokks raðast inn út frá fjölda persónuatkvæða hvers frambjóðanda.

Kielsen nýtur mikils persónufylgis og fékk flest persónuleg atkvæði allra þingmanna í kosningunum 2018, eða 2.183. Á móti kemur að innanmein og flokkadrættir í Siumut hafa farið vaxandi upp á síðkastið og fylgi flokksins dalað síðan hann tók við formennskunni í október 2014.

Flokkurinn fékk 10.102 atkvæði í kosningunum í nóvember sama ár, en hafði fengið 12.910 atkvæði árið áður, á meðan Aleqa Hammond var þar enn við stjórnvölinn. 2018 hallaði svo enn undan fæti, þegar Siumut fékk aðeins 7.959 atkvæði.