Hann er nú kominn langt á veg í náminu en á leiðinni hefur hann líka eignast íslenska fjölskyldu. Kjartan rakari, sem rekur stofuna ásamt föður sínum og bróður tók ásamt fjölskyldu sinni Móa í fóstur. Kjartan kom auga á rakarahæfileika Móa áður en hann kynntist honum.
„Ég var að klippa einn vin minn heima, við fórum svo í sund og hittum Kjartan sem er eiginlega pabbi minn núna. Kjartan spurði hver hefði klippt hann og hann sagði að það væri ég. Hann sagði við mig að ég mætti kíkja til þeirra þegar ég væri búinn i skólanum eða kíkja i kaffi. Ég kom hérna og það eru eiginlega 3-4 ár síðan. Það hefur alltaf gengið vel og allt upp á tíu. Ég er mjög ánægður að vinna hérna."
Mói byrjaði rakaraferilinn ungur hjá frænda sínum í Líbanon áður en hann kom ásamt fjölskyldu sinni sem flóttamaður frá Sýrlandi. Foreldrar hans ákváðu hins vegar að fara frá Íslandi en hann vildi verða eftir enda hafði hann eignast vini og komið sér vel inn í samfélagið á Selfossi.
„Hann kemur og svo núna eru liðin bara tvö og hálft ár og hann er hér enn, búinn að taka bílpróf, búinn að kaupa sér bíl, veit ekki hvort ég má segja það kominn með kærustu, er að læra klippingarnar á fleygiferð og allt á fullu gasi. Hann er bara partur af þessari fjölskyldu," segir Kjartan.