
Facebook og Ástralíustjórn ná samkomulagi
„Vegna þessara breytinga, þá getum við nú unnið áfram að fjárfestingum okkar í fréttamennsku í almannaþágu og tekið til við að birta fréttir á Facebook fyrir Ástrala á næstu dögum,“ sagði Will Easton, framkvæmdastjóri Facebook í Eyjaálfu.
Bannið vakti mikla reiði
Það vakti mikla reiði í síðustu viku þegar stjórnendur samfélagsmiðilsins tóku fyrir alla deilingu á hvers kyns fréttaefni á Facebook-síðum ástralskra notenda. Þá vildi nefnilega ekki betur til en svo, að um leið og lokað var fyrir deilingu frétta lokaðist fyrir deilingu á mikilvægum tilkynningum frá hinu opinbera, svo sem um bólusetningar og hættu á gróðureldum, veðurfregnir, tilkynningar frá félagasamtökum og góðgerðastofnunum og svo mætti áfram telja.
Eftir breytingarnar á frumvarpinu, sem stefnt er á að verði að lögum í þessari viku, virðist sem Facebook og Google verði ekki refsað, svo fremi sem þau geri einhvers konar samninga við ástralska fréttamiðla um endurgjald. Ekki verður kveðið á um lögbundið lágmarksgjald og ákvæði um að gerðardómur geti ákvarðað endurgjaldið, semji fyrirtækin ekki við fjölmiðla, var fellt niður.