Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Facebook og Ástralíustjórn ná samkomulagi

23.02.2021 - 06:57
epa09020239 An illustration image shows a phone screen with the Facebook logo and Australian Newspapers at Parliament House in Canberra, Australia, 18 February 2021. Social media giant Facebook has moved to prohibit publishers and people in Australia from sharing or viewing Australian and international news content in response to Australia's proposed media bargaining laws.  EPA-EFE/LUKAS COCH AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: LUKAS COCH - EPA
Stjórnendur Facebook tilkynntu í morgun að banni við dreifingu fréttaefnis ástralskra fjölmiðla verði aflétt, þar sem stjórnvöld í Ástralíu hefðu fallist á ákveðnar breytingar á boðaðri löggjöf um gjaldtöku vegna birtinga fréttaefnis á Facebook. Josh Frydenberg, fjármálaráðherra Ástralíu, og stjórnendur Facebook greindu frá því í morgun að málamiðlun hefði náðst um helstu ásteytingarsteinana í löggjöfinni.

„Vegna þessara breytinga, þá getum við nú unnið áfram að fjárfestingum okkar í fréttamennsku í almannaþágu og tekið til við að birta fréttir á Facebook fyrir Ástrala á næstu dögum,“ sagði Will Easton, framkvæmdastjóri Facebook í Eyjaálfu.

Bannið vakti mikla reiði

Það vakti mikla reiði í síðustu viku þegar stjórnendur samfélagsmiðilsins tóku fyrir alla deilingu á hvers kyns fréttaefni á Facebook-síðum ástralskra notenda. Þá vildi nefnilega ekki betur til en svo, að um leið og lokað var fyrir deilingu frétta lokaðist fyrir deilingu á mikilvægum tilkynningum frá hinu opinbera, svo sem um bólusetningar og hættu á gróðureldum, veðurfregnir, tilkynningar frá félagasamtökum og góðgerðastofnunum og svo mætti áfram telja.

Eftir breytingarnar á frumvarpinu, sem stefnt er á að verði að lögum í þessari viku, virðist sem Facebook og Google verði ekki refsað, svo fremi sem þau geri einhvers konar samninga við ástralska fréttamiðla um endurgjald. Ekki verður kveðið á um lögbundið lágmarksgjald og ákvæði um að gerðardómur geti ákvarðað endurgjaldið, semji fyrirtækin ekki við fjölmiðla, var fellt niður.