Enn of margir sem sækja komufarþega út á flugvöll

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Það eru enn brögð að því að fólk sæki vini og fjölskyldu á Keflavíkurflugvöll,“ segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli. Lögreglan hefur eftirlit með því hvernig fólk kemst heim af flugvellinum en samkvæmt sóttvarnareglum er óheimilt að sækja komufarþega á flugvöllinn, nema sá sem sæki fari líka í sóttkví.

Sigurgeir sagði í viðtali við Arnar Pál Hauksson í Speglinum í gær að heilt yfir hefði landamæravarslan gengið vel eftir að reglum var breytt á föstudaginn. Nýju reglurnar snúast í grófum dráttum um það að allir sem koma til landsins verða að framvísa svokölluðu PCR- vottorði sem má ekki vera eldra en þriggja sólarhringa og sýnir að farþegi hefur fengið neikvæða niðurstöðu á COVID-prófi. Farþegum ber að sýna vottorðið þegar gengið er um borð í flugvél á brottfararstað. Reglur um tvöfalda skimun og sóttkví eru enn í gildi. Þeir sem geta sýnt fram á að þeir hafi myndað mótefni eru lausir allra mála.

Bíða þess að sektarupphæð liggi fyrir

Til stendur að sekta þá sem ekki framvísa PCR-prófi við komuna til landsins. „Við höfum bara veitt þeim tiltal núna yfir helgina en væntanlega verður farið að beita sektum þegar sektarupphæð liggur fyrir hjá ríkissaksóknara,“ segir Sigurgeir. Á upplýsingafundi Almannavarna í gær kom fram að búist væri við að sektarupphæð lægi fyrir um miðja viku og þá yrði byrjað að sekta.

Farþegum sem ekki hafa PCR-vottorð sé ekki meinað að ganga um borð í flugvél: „Nei, skyldan hvílir á farþeganum að vera með vottorð. Miðað við sóttvarnalögin er ekki talið að hægt sé að skylda flugfélög til þess að synja fólki um að fara um borð,“ segir hann. 

Ekki orðið vör við fölsuð vottorð

Sigurgeir segir að landamæralögreglan hafi ekki orðið vör við að ferðamenn framvísi fölsuðum vottorðum. „Vottorðin veita fólki ekki rétt til að fara inn í landið án skimunar, við erum enn með tvöfalda skimun líka. En lögreglan á landamærunum er vön að fást við skilríki og þjálfuð í að skoða skilríki. Svo við teljum okkur vel í stakk búin til að greina falsanir,“ segir hann. 

Sigurgeir segir að vinnulagið sé nýtt og eftirlitið taki lengri tíma núna. „Þetta gengur mun hægar. Þetta er tafsöm vinna að skoða þessi vottorð og svo erum við líka að skoða önnur vottorð um yfirstaðnar sýkingar og bólusetningar,“ segir hann.  
 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV