Einn skammtur af bóluefni skilar mikilli vernd

23.02.2021 - 05:37
epa08931898 A nurse prepares a dose of the Oxford/AstraZeneca Covid-19 vaccine at the NHS vaccine mass vaccination centre that has been set up in the grounds of Epsom Race Course, in Surrey, Britain 11 January 2021. The UK government has announced that mass vaccination centres will start operating from 11 January in London, Newcastle, Manchester, Birmingham, Bristol, Surrey and Stevenage.  EPA-EFE/DOMINIC LIPINSKI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL
Greining raungagna sem safnað hefur verið í tengslum við bólusetningarherferð stjórnvalda í Englandi og Skotlandi leiðir í ljós að einn skammtur af bóluefni Pfizer-BioNTech og AstraZeneca veitir mikla vörn gegn alvarlegum veikindum af völdum COVID-19 og dregur þannig verulega úr þörf á sjúkrahúsinnlögnum vegna sjúkdómsins.

Þá hefur það sýnt sig að einn skammtur ver líka ungt fólk frá vægum og jafnvel einkennalausum sýkingum. Breska blaðið Guardian greinir frá þessu. Í frétt blaðsins segir að þrjár rannsóknir á skilvirkni og áhrifum fyrri bólusetningarinnar; tvær í Englandi og ein í Skotlandi, hafi skilað svipuðum niðurstöðum, þótt þær hafi beinst að áhrifum efnisins í ólíkum aldurshópum.

Og þó niðurstöðurnar innihaldi ekki sönnun þess að einn skammtur komi algjörlega í veg fyrir smit, þá sýni þær að hann komi í veg fyrir fjölda smita, sem ætti að hægja á útbreiðslu sjúkdómsins.

Líkur á smiti minnkuðu um 70 prósent eftir fyrri skammtinn

Í Englandi sýndi rannsókn á heilbrigðisstarfsfólki undir 65 ára aldri að líkur á smiti lækkuðu um 70 prósent eftir einn skammt af Pfizer-BioNTech-bóluefninu, og um 85 prósent eftir þann seinni.

Niðurstöður reglulegrar skimunar meðal fólks yfir 80 ára aldri, sem er hættara við að veikjast alvarlega af COVID-19 en þeim sem yngri eru, hníga í sömu átt. Þær sýna að þremur vikum eftir einn skammt af Pfizer-BioNTech-bóluefninu er fólk í þessum hópi 57 prósentum ólíklegra til að veikjast af COVID þannig að einkenna, jafnt vægra sem alvarlegra, verði vart. Ekki var búið að bólusetja mjög mörg úr þessum hópi öðru sinni þegar þessi gögn voru tekin saman, segir í frétt Guardian, en í þeim litla hópi virtist skilvirkni efnisins líka vera 85 prósent.

Styður stefnu stjórnvalda í bólusetningarmálum

Mary Ramsay, sem leiðir bólusetningaraðgerðir heilbrigðisyfirvalda í Englandi, segir þessar niðurstöður sýna að það hafi verið rétt ákvörðun að byrja á því að bólusetja sem flesta einu sinni og bíða frekar með seinni skammtinn.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra tók í sama streng þegar þau Ramsay kynntu niðurstöður rannsóknanna tveggja. Þær sýni að bóluefnið virki og dragi mjög úr álagi á heilbrigðiskerfið strax eftir einn skammt.

Skosk rannsókn fagnaðarefni fyrir AstraZeneca

Í Skotlandi rýndu sérfræðingar í árangurinn af bólusetningu með hvorutveggja bóluefni Pfizer-BioNTech og AstraZeneca, á 28 daga tímabili.

Niðurstöðurnar voru þær að eftir fjórar vikur hafði einn skammtur af Pfizer-BioNTech-bóluefni minnkað líkurnar á sjúkrahúsinnlögn vegna COVID-19 um 85 prósent, og þau sem fengu einn skammt af AstraZeneca-bóluefni voru þá orðin 94 prósentum ólíklegri til að þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda en þau sem óbólusett voru.

Ef aðeins er horft til elsta aldurshópsins, 80 ára og eldri, þá minnkuðu líkurnar á alvarlegum veikindum sem kölluðu á sjúkrahúsvist um 81 prósent þegar tekið er meðaltal af báðum bóluefnum.

Rannsakendur vara við beinum samanburði á virkni bóluefnanna út frá þessum niðurstöðum. Mun meiri gögn hafi legið fyrir um virkni bóluefnis Pfizer-BioNTech, þar sem mun fleiri hafi verið bólusettir með því, auk þess sem bóluefni AstraZeneca hefði einkum verið gefið eldra fólki í Skotlandi.

Þetta síðasta ætti að glæða vonir framleiðandans - og heilbrigðisyfirvalda um heim allan - um virkni bóluefnis AstraZeneca í elstu aldurshópunum. Til þessa hefur verið ráðið frá því að bólusetja aldraða með efninu, þar sem ónógar rannsóknir liggi fyrir um skilvirkni þess hjá þeim sem eldri eru en 65 ára.