Eiginkona „El Chapo“ á yfir höfði sér þungan dóm

23.02.2021 - 21:09
epa09030501 (FILE) - Emma Coronel Aispuro (C) leaves the building after a verdict was reached in the trial of her husband Joaquin 'El Chapo' Guzman at United States Federal Court in Brooklyn, New York, USA, 12 February 2019 (Reissued 22 February 2021). Emma Coronel Aispuro, wife of drug lord Joaquin 'El Chapo' Guzman, was arrested in relation to her alleged role in the trafficking and distribution of drugs in the US.  EPA-EFE/KEVIN HAGEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Emma Coronel Aispuro, eiginkona Joaquin „El Chapo“ Guzman, gæti hlotið þungan dóm ef marka má gögn sem birt voru í dag þegar hún var leidd fyrir dómara. Hún er sögð hafa tekið virkan þátt í glæpastarfsemi eiginmanns síns sem afplánar nú lífstíðardóm í víggirtu fangelsi í Colarado fyrir margvísleg óhæfuverk.

Coronel var daglegur gestur í réttarhöldunum yfir Guzman í New York fyrir tveimur árum.

Guzman kom fyrst auga á hana þegar hún var aðeins sautján ára og tók þátt í fegurðarsamkeppni. Þau eiga í dag saman tvíbura og margir hafa bent á að hún hafi vitað nákvæmlega að hverju hún gekk. Faðir hennar var býsna umsvifamikill fíkniefnasmyglari innan Sínaloa-glæpasamtaka Guzmans sem og bræður hennar.

Á meðan réttarhöldunum í New York stóð benti ekkert til þess að Coronel yrði sótt til saka, jafnvel þótt sum vitni bentu á að hún hefði óhreint mjöl í pokahorninu. 

Svo virðist sem Coronel hafi verið algjörlega grunlaus um að bandarísk yfirvöld væru á höttunum eftir henni. Samkvæmt frétt Guardian veitti hún sjónvarpsþættinum Cartel Crew viðtal árið 2019 þar sem hún sást um borð í snekkju undan ströndum Miami að sötra freyðivín. 

Það er því talið hafa komið henni  í opna skjöldu þegar hún var handtekin á Dulles-flugvellinum í Washington í gær. 

Mike Vigil, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar ríkisins, DEA, segir í samtali við Guardian að Coronel virðist hafa haft barnaleg sýn á bandarískt réttarkerfi.  „Henni hlýtur að hafa liðið öruggri og fundist eins og ekkert myndi gerast fyrir hana.“

Coronel kom fyrir dómara í dag.  Þar voru lögð fram gögn sem benda til þess að hún hafi verið meira viðriðin glæpastarfsemi eiginmanns en í fyrstu var talið.  

Henni er meðal annars gefið að sök að hafa komið að smygli á miklu magni af kókaíni, heróíni og metamfetamíni til Bandaríkjanna. Hún er jafnframt sökuð um að hafa aðstoðað eiginmann sinn við að stýra veldi hans á meðan hann sat á bakvið lás og slá í Mexíkó.

Þá er talið að hún hafi komið að skipulagningu á frægum flótta hans úr fangelsi árið 2015. Eftir að hafa keypt landareign skammt frá fangelsinu grófu  skósveinar Guzmans göng undir fangelsismúrana sem gerði honum kleift að flýja með því keyra gegnum gögnin á mótorhjóli.

Coronel verður áfram í gæsluvarðhaldi en verjandi hennar sagði í samtali við AFP að hún myndi lýsa yfir sakleysi. Dómari í Washington sagði að miðað við þau gögn sem lægju fyrir eigi hún yfir höfði sér minnst tíu ára fangelsi en mest lífstíðarfangelsi.